Íslenski boltinn

Óli Kristjáns: Nafni minn mun líklega klára dómararumræðuna

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH.
Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH. vísir/daníel
Þjálfari FH, Ólafur Kristjánsson, var að vonum sáttari þjálfarinn af tveimur líklega óánægðum þjálfurum með dómgæsluna eftir leik Vals og FH í Pepsi Max-deild karla í kvöld.

Kláraði hann umræðuna um dómgæsluna með því að segja „nafni minn mun líklega klára þá umræðu.“ Hann var þess vegna spurður hvað FH gerði rétt í leiknum til að ná í stigin.

„Við vorum agaðir, við vorum þolinmóðir, við vorum þrautseigir og í fyrri hálfleik fannst mér við vera pínu hræddir við að halda boltanum. Við fundum ekki takt og hefðum mátt hitta markið með þessum skotfærum en gáfum engin færi á okkur. Í hálfleik ræddum við að ef við myndum halda skipulagi og aga þá myndum við klára þennan leik.“

Ólafur var því næst spurður að því hversu mikilvægur sigurinn væri fyrir hans menn og hvort að tímabilið hjá FH væri að verða að góðu tímabili.

„Hann er gríðarlega mikilvægur. Deildin er að spilast þannig að ef við hefðum tapað þessum leik þá hefðum við setið helvíti aftarlega á merinni en með því að vinna þá lyftum við okkur aðeins upp og finnum lyktina af því sem að FH hefur þekkt í mörg ár og það er lyktin sem við viljum finna.“

„Ég veit ekkert um það. Ég hef áður sagt það að þetta er annaðhvort lykillinn að Nangiala eða miðflokksmaður á Klausturbara. Upp í skýjunum þegar maður vinnur og svo í drullunni þegar við töpum. Þegar tímabilið er búið þá metum við hvort að tímabilið sé gott eða ekki.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×