Þetta kom fram í viðtali við Sigurð Inga í Bítinu á Bylgjunni í morgun þar sem hin þunga morgunumferð á höfuðborgarsvæðinu var meðal annars til umræðu. Sagt hefur verið frá því að Mosfellingar séu orðnir langþreyttir á þungri umferð frá Mosfellsbæ til Reykjavíkur og að sumir þeirra séu 60 mínútur að ferðast leið sem tekur um tólf mínútur þegar umferð er ekki eins þung.
Var Sigurður Ingi spurður af því af þáttastjórnendum hvort þetta væri boðlegt.
„Nei, það er náttúrulega það sem öllum er ljóst að þessar tafir sem hefjast þegar skólarnir hefjast á haustin eru óbærilegar og allt of miklar og allt of dýrar. Þess vegna eru menn að vinna að einhverjum lausnum,“ sagði Sigurður Ingi.
Sveigjanlegur skóla- og vinnutími auðveld lausn
Taldi ráðherrann fyrst upp lausnir sem gætu slegið á hina mikla umferð en teldust ódýrari eða auðveldari í framkvæmd en miklar fjárfestingar í samgöngumannvirkjum.„Auðveldasta lausnin væri auðvitað sveigjanlegur skólatími þar sem að skólarnir byrjuðu seinna og myndu þá kannski hjálpa til við að unga fólkið myndi fá að sofa aðeins meira. Við vitum að það sefur of lítið og jafn vel fer of snemma á fætur. Það virðist enginn þora að fara þá leið, enginn skóli,“ sagði Sigurður Ingi.
Þá sagðist hann einnig telja að sveigjanlegur vinnutími myndi hjálpa til auk þess sem að snjallstýring á umferðarljósum á höfuðborgarsvæðinu gæti verið hentug og tiltölulega ódýr leið til þess að stýra flæði umferðarinnar á höfuðborgarsvæðinu betur.
Ekki nóg að byggja bara upp stofnbrautir
Einnig væri samtal í gangi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um „stórkostlega uppbyggingu“ á stofnbrautum og almenningssamgöngum. Lykilatriðið í að minnka umferð væri þó það að breyta þyrfti ferðavenjum á höfuðborgarsvæðinu.
„Staðreyndin er þessi og það eru til ágætar niðurstöður rannsókna síðustu missera um það að ef við förum ekki í það að breyta ferðavenjum okkar í auknum mæli þá mun traffíkin verða sífellt erfiðari og óskilvirkari,“ sagði Sigurður Ingi.
Sagði Sigurður Ingi að vissulega væri mikilvægt að fara í öflugt átak í að byggja upp stofnbrautir á höfuðborgarsvæðinu en gera þyrfti öðrum fararmátum einnig hátt undir höfði.
„Líka aðra ferðamáta eins og almenningssamgöngur, strætó, borgarlínu, hjólandi, gangandi því öðruvísi munum við ekki komast í gegnum þetta,“ sagði Sigurður Ingi.
Var hann að lokum spurður hvort að ráðherrar í ríkisstjórnini væru reiðubúnir til þess að taka strætó í og úr vinnu stóð ekki á svörum.
„Ég held að allir séu tilbúnir til að taka strætó til vinnu svo fremi að sú þjónusta skili þér á nægjanlega góðum tíma og ég tala nú ekki um ef hún skilar þér á hraðari tíma heldur en í dag.“