Konan sem var myrt í Malmö í gær var læknir og nýbökuð móðir. Barnsfaðir hennar var dæmdur fyrir aðild sína að einu stærsta ráni í sögu Danmerkur.
Greint er frá þessu á vef sænska ríkisútvarpsins SVT sem greinir frá því að afbrotasaga barnsföður konunnar sé á meðal þess sem sé til rannsóknar varðandi morðið. Skoðar lögreglan hvort fortíð barnsföðurins hafi eitthvað haft með morðið að gera eða þá hvort vitnisburður konunnar í morðmáli hafi tengst því á einhvern hátt.
Sænska ríkisútvarpið segir frá því að konan hafi eignast barnið í sumar en hún stundaði læknanám erlendis áður en hún fékk stöðu sem læknir í Svíþjóð. Samkvæmt upplýsingum SVT þá hafði konan aldrei komist í kast við lögin. Þá á hún ekki að hafa verið flækt í glæpsamlegt athæfi.
Barnsfaðirinn er 35 ára gamall en hann hafði tengingar í undirheima Malmö. Árið 2010 var hann dæmdur til átta ára fangelsisvistar fyrir aðild sína að Bröndby-ráninu þar sem ræningjar komust undan með 60 milljónir danskra króna í farteskinu. Kom maðurinn að skipulagningu ránsins ásamt því að vera einn af þeim sem frömdu það.
Konan var á gangi ásamt barni sínu og barnsföður í miðborg Malmö þegar maður gekk óvænt upp að henni og skaut hana í höfuðið. Nokkrir skothvellir heyrðust áður en gerandinn flúði af vettvangi. Hvorki barninu né barnsföðurnum varð meint af.
Lögreglan í Malmö hélt blaðamannafund í morgun þar sem kom fram að einn er í haldi í tengslum við rannsókn á morðinu.
Hann er talinn hafa átt sér vitorðsmenn en lagt hefur verið hald á það sem lögreglan telur vera morðvopnið.
Morðið í Malmö: Barnsfaðir konunnar hafði verið dæmdur fyrir eitt stærsta rán í sögu Danmerkur

Tengdar fréttir

Morðvopnið líklega fundið en morðinginn ekki
Maðurinn sem er í haldi sænsku lögreglunnar í tengslum við rannsókn á morði þrítugu konunnar, sem skotin var til bana í Malmö í gær, er grunaður um aðild að verknaðinum auk þess að hafa gerist brotlegur við það sem lögregla kallar gróft brot á vopnalögum.

Einn handtekinn vegna morðsins í Malmö
Einn maður var handtekinn í Malmö síðdegis í dag grunaður um aðild að morði á konu um þrítugt í sænsku borginni í morgun.

Aftakan í Malmö: Kanna hvort morðið tengist vitnisburði konunnar í morðmáli eða afbrotasögu barnsföður hennar
Konan var á gangi í miðborg Malmö ásamt barni sínu og barnsföður þegar dökkklæddur maður birtist óvænt og skaut hana í höfuðið.

Minntust konunnar sem var myrt í Malmö
Íbúar Malmö héldu minningarathöfn í gærkvöld um sænsku konuna sem skotinn var til bana í borginni í gær.