Lífið

Ariana sneri aftur til Manchester til að fagna fjöl­breyti­leikanum

Sylvía Hall skrifar
Ariana Grande.
Ariana Grande. Vísir/Getty
Rúmlega tvö ár eru liðin frá því að hryðjuverkamaður sprengdi sig í loft upp á tónleikum söngkonunnar Ariönu Grande í Manchester þann 22. maí 2017 með þeim afleiðingum að 22 létust. Í kjölfarið hélt söngkonan styrktartónleika í borginni með mörgum vinsælustu tónlistarmönnum heims og var hún gerð að heiðursborgara í borginni.

Á laugardag sneri söngkonan í fyrsta sinn aftur til borgarinnar eftir árásina og styrktartónleikana til þess að koma fram á gleðigöngunni þar í borg. Hún sagði það vera yfirþyrmandi að heimsækja borgina á ný og viðurkenndi að hún væri nokkuð stressuð.

„Ég er svo glöð að vera með ykkur, takk fyrir að taka á móti mér. Fyrirgefið, ég er svo stressuð. Ég ætlaði að segja miklu meira en þetta er mjög yfirþyrmandi. Svo takk,“ sagði söngkonan og bætti við að borgin myndi alltaf eiga sérstakan stað í hjarta hennar.

Ariana, sem er ein vinsælasta söngkona heims, söng níu lög fyrir þátttakendur göngunnar og hóf leik á laginu No Tears Left To Cry, sem var fyrsta lagið sem hún gaf út í kjölfar árásarinnar. Að sögn aðdáenda var augljóst að tónleikarnir væru tilfinningaþrungnir fyrir söngkonuna, sem virtist vera við það að bresta í grát þegar hún tók lagið.

„Hún er svo sterk. Hún var til staðar fyrir okkur. Hún var til staðar fyrir hinsegin samfélagið. Hún var til staðar fyrir Manchester,“ sagði einn aðdáandi í samtali við BBC. Að hans sögn var ekki þurrt auga í fjöldanum þegar söngkonan steig á svið.


Tengdar fréttir

Fyrsta lagið eftir árásina í Manchester

"No Tears Left to Cry“ er fyrsta lagið sem söngkonan Ariana Grande gefur út síðan hryðjuverkamaður sprengdi sprengju fyrir utan Manchester Arena tónleikahöllina þar sem söngkonan hélt tónleika.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×