Íslenski boltinn

Jeffs: Ef þú gefur mörk og skorar ekki nægilega mörg taparðu leikjum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
ÍBV hefur aðeins náð í eitt stig síðan Jeffs tók við liðinu.
ÍBV hefur aðeins náð í eitt stig síðan Jeffs tók við liðinu. vísir/daníel
„Bara svekktur, að tapa fótboltaleik er alltaf svekkjandi og mér fannst við eiga ágætis leik í dag. Byrjuðum leikinn vel en gáfum þessi tvö mörk fannst mér. Þetta var aldrei aukaspyrna í fyrra markinu en hann [Þorvaldur Árnason, dómari] var búinn að dæma aukaspyrnu og við verðum bara að klára varnarvinnuna og hreinsa boltann, við gerum það ekki. Í mark númer tvö var gefins víti. En strákarnir háldu áfram allan tímann, náðu að skora eitt mark og setja pressu á ÍA undir lokin en þetta var ekki nóg í dag,“ sagði svekktur Ian Jeffs að loknu 2-1 tapi ÍBV á Skipaskaga.

Það er því endanlega ljóst er að Eyjamenn munu leika í Inkasso deildinni að ári.

„Ég held þetta verði eins og það hefur verið núna síðustu 4-5 leiki. Við erum ekki búnir að pæla of mikið í þessu en vissum alveg að við værum í erfiðri stöðu. Við reynum að taka einn leik í einu og vorum ekki að pæla í neinu nema næsta verkefni. Strákarnir sýndu það í dag að þeir væru tilbúnir að berjast og gefa allt í þetta en ef þú ert að gefa mörk og ekki að skora nægilega mörg þá taparðu fótboltaleikjum. Það er bara þannig,“ sagði Jeffs að lokum aðspurður um hvernig stemningin í hópnum væri fyrir komandi leikjum.

Að lokum var Jeffs spurður út í framtíðina.

„Við klárum þessa fjóra leiki sem eru eftir og erum ekki að hugsa neitt lengra en það. Félagið er að skoða hvernig er hægt að gera hlutina betur og læra af mistökunum sem við gerðum í sumar. Ég get lært af þessu og ég held að leikmenn geti það líka,“ sagði Jeffs að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×