Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, hefur í gegnum árin haft það fyrir sið að bjóða borgarbúum í vöfflukaffi heima hjá sér á Óðinsgötu á Menningarnótt.
Ekkert vöfflukaffi verður hins vegar á morgun vegna framkvæmda sem standa yfir í götunni en Óðinsgatan er sundurgrafin eins og borgarstjóri orðaði það í beinni útsendingu í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Þá var rætt við hann og Björgu Jónsdóttur, verkefnastjóra Menningarnætur, um morgundaginn þegar fjöldi menningarviðburða verður víðs vegar um borgina, flestir þeirra í miðbænum.
„Öll miðborgin er undir þannig að það er nóg um að vera og ég mæli með því að fólk skoði dagskrána inn á menningarnott.is eða taki bara strætó niður í bæ, gangi um og láti koma sér á óvart. Það er fullt í boði,“ segir Björg.
Dagur tekur undir með Björgu um að láta koma sér á óvart.
„Það sem mér finnst svo skemmtilegt við Menningarnótt er þegar íbúar sjálfir og fyrirtæki brydda upp á einhverju óvæntu. Það eru margar götur sem hafa tekið sig saman um markaði, þeir eru úti um allt. Alls konar hátíðir, þeir sem vilja dansa fara út á Hagatorg, þeir sem vilja fara á tónleika geta farið á þá um alla miðborgina eiginlega. Svo er líka bara svo skemmtilegt að hitta gamla kunningja eða eignast nýja vini til dæmis í karókí hjá útitaflinu þannig að það eru ótal möguleikar,“ segir Dagur en viðtal Jóhanns K. Jóhannssonar, fréttamanns, við hann og Björgu má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.
Haukar
Galychanka Lviv