Erlent

Fjórir látnir og 100 særðir eftir að hafa orðið fyrir eldingu í Póllandi

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá björgunaraðgerðum við nærri Tatra-fjöllum í Póllandi í dag.
Frá björgunaraðgerðum við nærri Tatra-fjöllum í Póllandi í dag. Vísir/EPA
Að minnsta kosti fjórir eru látnir og 100 særðust þegar þeir urðu fyrir eldingum í þrumuveðri í Tatra-fjöllum Póllandi í dag. Þetta er haft eftir forsætisráðherra Póllands, Mateusz Morawiecki, á vef fréttastofu breska ríkisútvarpsins BBC.

Öflugustu eldingunni laust niður í hóp fjallgöngumanna nærri toppi fjallsins Giewont í suðurhluta landsins.

Einn lét lífið í Slóvakíu eftir að hafa fengið eldingu í sig í dag en BBC segir að eitt barn sé á meðal þeirra látnu.

Er þetta þrumuveður sagt hafa haft lítinn aðdraganda. Glaða sólskin var víðast hvar þegar íbúar landsins vöknuðu en síðan dundu hörmungarnar yfir. 

„Það bjóst enginn við að þetta myndi skella svo hratt á. Þetta var eitthvað sem var ómögulegt að spá fyrir um,“ sagði Morawiecki þegar hann tjáði sig um málið á neyðarfundi vegna þessara hamfara.

Toppur Giewon-fjallsins er 1.894 metra yfir sjávarmáli en þar má finna fimmtán metra háan málmkross. 

Talið er að eldingu hafi slegið niður í krossinn þegar hópur fjallgöngumanna var við hann. Er straumurinn úr eldingunni sagður hafa farið í gegnum keðju sem var komið upp til að tryggja förin upp á toppinn. 



Íbúí í bænum Zakopane, sem er nærri fjallinu Giewon, náði þessu myndbandi af þrumuveðrinu. 

Hefur bæjarstjóri ZakopaneLeszek Dorula, lýst yfir sorgardegi á föstudag.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×