Matvælastofnun telur að háþrýstiþvottur á umhverfi nautgripa hafi að líkindum verið ein af smitleiðum STEC smitsins í Efstadal II í fólk. Þó er ekki hægt að útiloka að ísinn sé meðal smitleiða að sögn yfirdýralæknis hjá Matvælastofnun.
Alls greindust 24 einstaklingar með STEC, sem eru eiturmyndandi E. coli bakteríur eftir að hafa verið í Efstadal tvö fyrr í sumar. Þeir sem veiktust áttu það öll sameiginlegt að hafa borðað heimagerðan ís á staðnum og beindust spjótin því helst að ísnum.
Nú telur Matvælastofnun að háþrýstiþvottur á umhverfi nautgripa hafi verið ein af smitleiðum.
Stofnunin vekur athygli bænda og annarra framleiðenda á því að úði frá háþrýstiþvotti á smituðu umhverfi geti dreift smitefnum og valdið sjúkdómi í dýrum og mönnum.
Í úðanum sem myndist við háþrýstiþvott geti verið sveppir, bakteríur, veirur, sníkjudýr eða önnur smitefni sem berast auðveldlega í fólk og dýr, t.d. með því að anda úðanum að sér.
„Þá spýtist skítur um loft, veggi og gólf og þá myndast líka úði. Skíturinn getur dreifst og í þessum úða getur verið smitefni, semsagt bakteríur. Þannig háttar til á þessum stað að það er tiltölulega stutt þar sem kálfarnir eru og þar sem fólk situr úti á bekkjum og það eru borð og þar er verið að borða nesti fyrir utan það að snerta kálfana þá getur þetta verið á borðum og stólum og líka í andrúmsloftinu ef það er nýbúið að háþrýstiþvo,“ sagði Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun.
Hún segir að það geti verið að úðinn hafi borist inn í ísbúðina og í ísinn, því sé ekki hægt að útiloka að ísinn hafi verið meðal smitleiða.
Stofnunin mælir með að fólk í landbúnaði og matvælaiðnaði endurskoði starfsvenjur sínar þar sem lágþrýstiþvottur sé æskilegri. Slíkur þvottur myndar ekki úða og óhreinindi dreifast síður.
Mælir með að fólk í landbúnaði og matvælaiðnaði endurskoði starfsvenjur

Tengdar fréttir

Háþrýstiþvottur líklega ein af smitleiðunum
Matvælastofnun telur að háþrýstiþvottur á umhverfi nautgripa hafi að líkindum verið ein af smitleiðum STEC-smitsins í Efstadal II í fólk.