Umfjöllun og viðtöl: KR 1-2 Breiðablik | Blikar komu til baka í seinni hálfleik

Gabríel Sighvatsson skrifar
Hildur Antonsdóttir, leikmaður Breiðabliks.
Hildur Antonsdóttir, leikmaður Breiðabliks. vísir/bára
Breiðablik er í harðri baráttu við Valsmenn um Íslandsmeistaratitilinn og var fyrir leik tveimur stigum á eftir í þeirri baráttu.

KR er aftur á móti í sjöunda sæti deildarinnar og aðeins þremur stigum frá fallsæti. Hvert stig sem KR getur náð í er því afar mikilvægt.

Staða liðanna breyttist ekkert eftir leik en Breiðablik hafði að lokum eins marks sigur. Valur situr enn á toppnum eftir 1-0 sigur á Selfoss.

Breiðablik var í vandræðum með KR-ingar í fyrri hálfleik, þeim tókst ekki að brjóta þær upp og fengu á sig klaufalegt mark.

Í seinn hálfleik lifnuðu Blikar aðeins við. Þær stjórnuðu leiknum betur og fengu fleiri hættuleg færi. Sóknarþunginn bar loks árangur á 68. mínútu þegar Karólína Lea Vilhjálsmsdóttir kom knettinum í netið eftir góða stungusendingu inn fyrir frá Berglindi Björgu.

Berglind Björg hafði ekki lokið sér af og skoraði sigurmark Breiðablik þegar rúmar 10 mínútur voru eftir að venjulegum leiktíma og liðið hefði getað bætt við fleiri mörkum. Lokatölur 2-1 fyrir gestina.

Af hverju vann Breiðablik?

Breiðablik er með betra lið en KR og í betra formi. Blikar höfðu ekki spilað í minnst viku fyrir lekinn í kvöld á meðan KR var nýbúið að spila 120 mínútur fyrir nokkrum dögum síðan.

Það var því komin þreyta í KR-liðið þegar fór að líða á leikinn og Blikar nýttu sér það og kláruðu leikinn með tveimur mörkum.

Hvað gekk illa?

Í fyrri hálfleik spilaði KR virkilega vel, þær náðu að halda Blikum vel í skefjum og varnarmennirnir stóðu fyrir sínu. Blikar fengu ekki mörg hættuleg færi á meðan KR var frekar heppið með markið sitt.

Það stefndi í óvænt úrslit en KR-liðið náði ekki að halda út í 90 mínútur og skipti það klárlega sköpum í dag.

Hverjar stóðu upp úr?

Ingibjörg var frábær í leiknum og varði fullt en fékk tvö mörk á sig undir lokin. Lilja Dögg var einnig mjög góð í vörninni. Hjá Breiðablik var Berglind Björg hættulegust og endaði með stoðsendingu og mark í leiknum. Karólína og Alexandra spiluðu einnig mjög vel en rétt eins og allt liðið átti erfitt með að finna leiðir í gegnum KR vörnina.

Hvað gerist næst?

Breiðablik og Valur halda áfram að keppast um titilinn. Næsti leikur er gegn Stjörnunni á sunnudaginn og þar er annar skyldusigur á borðinu fyrir Blikana.

KR er enn ekki laust við falldrauginn og á næst gífurlega mikilvægan leik við Keflavík sem er einmitt í fallsæti. Sá leikur er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport á sunnudag kl 14.00.

Jóhannes Karl: 1-0 í hálfleik telur ekki

Jóhannes Karl Sigursteinsson, þjálfari KR, var nokkuð sáttur með spilamennskuna hjá sínu liði í kvöld.

„Mér fannst frammistaðan bara heilt yfir býsna góð. Það var margt jákvætt sem við vorum að gera.“

„Við erum að mæta Breiðablik sem er með hörkulið en náum engu að síður að koma og spila ágætis fótbolta. Það sem við lögðum upp með gekk ágætlega, við vorum að loka svæðum varnarlega og gefa færri færi á okkur en við höfum verið að gera. Sóknarlega erum við að halda ágætlega í bolta og spila á móti Breiðablik sem er mjög gott.“

KR var óvænt yfir í fyrri hálfleik en flottur fyrri hálfleikur skilaði þeim marki á meðan gestirnir náðu ekki að skora.

„Það þurfti aðeins meira til. Blikarnir voru skrefinu framar og settu 2 en við bara 1.“

„Þetta var mjög flottur fyrri hálfleikur, gott mark og margar góðar sóknir. En 1-0 í hálfleik telur víst ekki.“

KR er nýbúið að spila í úrslitum bikarkeppninnar og fór sá leikur alla leið í framlengingu. Það mátti sjá á KR-ingum að það var komin þreyta í mannskapinn undir lokin.

„Það telur í þessu að hafa tekið 120 mínútur á laugardaginn og mögulega einhver þreyta. Það er bara þannig í svona leikjum að Blikarnir koma til með að fá einhver færi. Þú verður að reyna að ná að ýta þeim út í þröngar stöður og láta þær taka erfiða kosti. Mér fannst fyrra markið frekar einfalt en seinna markið virkar bara virkilega vel afgreitt og erfitt við það að eiga.“

Steini: Vorum ekki að spila vel

Þorsteinn H Halldórsson, þjálfari Stjörnunnar, var ekki nógu ánægður með frammistöðuna en var feginn að hafa náð í 3 stig.

„Við vorum ekki að spila vel, heilt yfir.“

„Við höfum oft spilað betur. Það var svolítið ströggl á okkur, lendum undir, gefum þeim mark og gerum okkur ennþá erfiðara fyrir. Ég er sáttur að komast héðan með 3 stig og það er það sem við komum til að gera.“

„Mér finnst vanta kraft í okkur, vorum langt frá mönnum og vorum ekki að ná að spila leikinn eins og við lögðum upp með. Það vantaði svolítið að halda boltanum ofarlega á vellinum til að skapa færi. Það lagaðist aðeins í seinni hálfleik.“

Bæði lið hafa haft nóg að gera, KR í bikarnum heima og Breiðablik úti í Meistaradeildinni.

„Við komum hingað til að taka 3 stig og það heldur bara áfram. Það virkaði kannski smá þreyta í okkur á köflum, sérstaklega í fyrri hálfleik, við vorum lengi í gang. Við náum að opna þær vel á köflum og skora góð mörk.“

Breiðablik er í góðri stöðu í deildinni og framundan er tveggja hesta hlaup milli þeirra og Vals.

„Ef við vinnum rest þá verðum við meistarar, það er ekki flókið. En það er bara næsti leikur. KR-liðið er gott lið og ekki sjálfsagt að koma hingað og vinna, það þarf að hafa fyrir þessu og næsti leikur er svoleiðis líka.“ sagði Steini að lokum.

Guðmunda Brynja: Leiðinlegt að fá ekkert út úr þessu

„Mér fannst að þetta hefði átt að vera 1-1 jafnteflisleikur,“ sagði Guðmunda Brynja Óladóttir, leikmaður KR, eftir 2-1 tapið gegn Breiðablik. Hún var svekkt með tapið og fannst þær eiga meira skilið úr leiknum.

„Við spiluðum ótrúlega vel, sérstaklega í fyrri hálfleik. Við stjórnuðum leiknum þannig að það er leiðinlegt að fá ekkert út úr þessu.“

„Vörnin var frábær í dag og Ingibjörg líka. Það er eitthvað sem er búið að vera smá bras hjá okkur. Við erum að ná góðri vörn og þetta var mjög gott í dag.“

Í seinni hálfleik kom Breiðablik til baka og skoraði 2 mörk, akkúrat það sem þurfti til að vinna leikinn. Það vantaði smá orku í KR á lokametrunum.

„Við vorum svolítið fastar í að verjast, við vorum búnar að verjast lengi. Kannski spilar eitthvað að við vorum að spila 120 mínútur fyrir þremur dögum og það situr kannski aðeins í okkur, allavegana sat það í mér. Ég held að hefðum við ekki spilað á laugardaginn þá hefðum við tekið þær.“

Guðmunda Brynja hefur ekki skorað mikið í sumar þrátt fyrir að fá sín færi en var ánægð með markið sitt í dag. 

„Þetta var frekar asnalegt skot hjá mér. Ég er ekki búin að skora mikið í sumar, það er svolítið að koma núna. Það var mjög gott að skora á Sonný sem hefur fengið fá mörk á sig, það gefur mér sjálfstraust.“

„Þetta var sísta skotið sem ég bjóst við en það kannski jafnar út hin skotin sem ég hefði átt að skora. Ég þarf að laga mín skot og fara að skora meira.“

KR er enn í botnbaráttu og það eru mikilvægir leikir framundan.

„Það eru allir leikir sem eftir eru úrslitaleikir. Það er stutt á milli allra liðanna sem eru í botnbaráttunni og við þurfum að gíra okkur vel upp í það.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira