Enski boltinn

Balotelli mætir aftur á Etihad leikvanginn í september

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vincent Kompany reynir hér að róa skapheitann Mario Balotelli í einum af leikjum þeirra saman með Manchester City.
Vincent Kompany reynir hér að róa skapheitann Mario Balotelli í einum af leikjum þeirra saman með Manchester City. Getty/Alex Livesey
Mario Balotelli hefur samþykkt að klæðast Manchester City treyjunni í að minnsta kosti eitt skipti í viðbót.

Ítalski framherjinn, sem snéri á dögunum aftur heim til Brescia, mun taka þátt í hátíðarleik Vincent Kompany á Etihad leikvanginum í september.

Balotelli var vinsæll meðal stuðningsmanna Manchester City og um leið fastagestur á síðum ensku blaðanna þegar hann lék með Manchester City frá 2010 til 2013.





Mario Balotelli skoraði 30 mörk í 80 leikjum fyrir Manchester City en það var einmitt Balotelli sem átti stoðsendinguna á Sergio Aguero þegar Aguero tryggði City Englandsmeistaratitilinn árið 2012.

Sergio Aguero og David Silva munu einnig taka smá þátt í þessum leik og spila þar með lið Kompany sem kallast City Legends. Pep Guardiola mun stýra goðsagnaliði Manchester City en Roberto Martinez mun stýra úrvalsliði leikmanna úr öðrum liðum. Leikurinn fer fram 11. september næstkomandi en þá er í gangi landsleikjahlé.

Meðal leikmanna sem ætla að spila með Manchester City þennan dag eru menn eins og Joe Hart, Joleon Lescott, Micah Richards, Pablo Zabaleta, Wayne Bridge, Gareth Barry, Nigel de Jong, Samir Nasri, Shaun Wright-Phillips, Stephen Ireland og Craig Bellamy. Allir spiluðu þeir með Vincent Kompany hjá Manchester City.

Vincent Kompany lék með Mancester City frá 2008 til 2019 og vann tíu stóra titla sem fyrirliði liðsins þar af Englandsmeistaratitilinn fjórum sinnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×