Innlent

Framlög til þjóðkirkjunnar tæpir þrír milljarðar

Atli Ísleifsson skrifar
Framlagið er aukið til að uppfylla kirkjujarðasamkomulagið svokallaða frá 1997.
Framlagið er aukið til að uppfylla kirkjujarðasamkomulagið svokallaða frá 1997. vísir/vilhelm
Framlög til þjóðkirkjunnar nema 2.981 milljónum króna á næsta ári. Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti í morgun.

Í gögnum frá fjármálaráðuneytinu segir að framlagið sé aukið til að uppfylla kirkjujarðasamkomulagið svokallaða frá 1997 milli þjóðkirkjunnar og ríkisins um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar.

Samkvæmt samkomulaginu afhenti þjóðkirkjan ríkinu um það bil sex hundruð jarðir til eignar en fékk á móti árleg afgjöld sem námu launum 138 presta og nokkurra annarra starfsmanna kirkjunnar.

Í fyrri útgáfu fréttar sagði að um 860 milljóna króna aukningu væri að ræða á milli ára. Sá er munurinn séu fjárlög áranna borin saman en sambærilegri upphæð var bætt við í framlög til Þjóðkirkjunnar í fyrra í viðaukafjárlögum.

Pétur Georg Markan, samskiptastjóri Biskupsstofu, segir við Vísi að því sé engin framlagaaukning til þjóðkirkju Íslands í fjárlögum sem kynnt voru í morgun.

Fréttin var uppfærð klukkan 14:29.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×