Enski boltinn

Carra hefur ekki miklar áhyggjur af ósætti Mané og Salah

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah og Sadio Mane keppast við að skora sem flest mörk fyrir Liverpool liðið.
Mohamed Salah og Sadio Mane keppast við að skora sem flest mörk fyrir Liverpool liðið. Getty/Andrew Powell
Enskir fjölmiðlar hafa fjallað mikið um ósætti tveggja af stærstu stjörnum Evrópumeistara Liverpool enda fór það ekki á milli mála hjá neinum þegar Sadio Mane brjálaðist þegar hann var tekinn af velli á móti Burnley um helgina.

Sadio Mane var reiður yfir því að Mohamed Salah reyndi sjálfur að „hnoða“ inn marki í stað þess að gefa á Sadio Mane sem var í dauðafæri. Sadio Mane var búinn að skora í leiknum en Mohamed Salah ekki. Mohamed Salah skoraði aftur á móti tvö mörk í leiknum á undan og hann fær líka að taka vítaspyrnur liðsins.

Sadio Mane hefði jafnað við Salah í deildarmörkum á þessu tímabili hefði hann fengið boltann frá Salah og skoraði sitt þriðja mark í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni.

Mohamed Salah og Sadio Mane skoruðu jafnmörg mörk í ensku úrvalsdeildinni í fyrra og enginn leikmaður í deildinni skoraði fleiri mörk. Það er augljóslega mikil keppni í gangi og stuðningsmenn Liverpool hafa nú örugglega áhyggjur af því að hún sé hreinlega orðin of mikil.





Gamli Liverpool maðurinn Jamie Carragher, sem starfar nú sem knattspyrnuspekingur í sjónvarpi, ræddi þessa uppákomu helgarinnar á Sky Sports eins og sjá má hér fyrir ofan.

„Salah hefði átt að gefa hann í nokkur skipti en ég hrifinn af því hjá markaskorurum að þeir sjái bara markið. Ég er viss um að þetta verður í lagi,“ sagði Jamie Carragher.

Liverpool er með fullt hús á toppnum og Jürgen Klopp fær því nægan tíma til að létta andrúmsloftið fyrir næsta leik liðsins. Báðir leikmenn eru líka á leiðinni í landsleikjafrí og það hjálpar eflaust líka.

Það er líka pottþétt að léttleiki Klopp mun hjálpa til og svo má ekki gleyma hinum skemmtilegi Brasilíumanni Roberto Firmino sem var þegar byrjaður að vinna í þessum málum á varamannabekknum á laugardaginn.

Það er hins vegar alveg pottþétt að í næsta leik Liverpool, sem verður á móti Newcastle United 14. september næstkomandi, þá verða öll augu á þeim Mohamed Salah og Sadio Mane. Það verður fylgst með öllum svipbrigðum og öllum augnagotum þeirra á milli.

Eftir þessa uppákomu í Burnley þá þurfa þeir Mohamed Salah og Sadio Mane að gefa margar stoðsendingar á hvorn annan áður en menn trúa því fyrir alvöru að þeir séu orðnir góðir vinir á ný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×