Handbolti

Al­freð fagnaði aftur gegn Degi fyrir EM

Sindri Sverrisson skrifar
Alfreð Gíslason gat fagnað í Hannover í kvöld.
Alfreð Gíslason gat fagnað í Hannover í kvöld. Getty/Stina Schuldt

Alfreð Gíslason fagnaði í annað sinn á fjórum dögum gegn Degi Sigurðssyni, þegar lið Þýskalands og Króatíu mættust í seinni vináttulandsleik sínum fyrir Evrópumótið í handbolta.

Þýskaland hafði unnið 32-29 sigur í Zagreb á fimmtudagskvöld og í Hannover í kvöld, fyrir framan 10.427 áhorfendur í ZAG Arena, fögnuðu lærisveinar Alfreðs sex marka sigri, 33-27.

Markvörðurinn Andreas Wolff var í essinu sínu og varði tuttugu skot, þar af tvö af vítalínunni, auk þess sem að skora eitt mark sjálfur. Hann gerði því gæfumuninn í kvöld en Lukas Zerbe og Renars Uscins voru markahæstir Þjóððverja með fimm mörk hvor.

Þýska liðið dvelur einn dag til viðbótar í Þýskalandi en heldur svo til Danmerkur og byrjar þar Evrópumótið á leik við Austurríki í Herning á fimmtudaginn. Liðið er einnig í riðli með Serbíu og Spáni, og komast tvö efstu liðin áfram í milliriðla.

Lærisveinar Dags í HM-silfurliði Króatíu gætu mætt Íslendingum í milliriðlakeppninni á EM. Þeir spila hins vegar fyrst í riðli með Georgíu, Svíþjóð og Hollandi, í Malmö þar sem milliriðilinn verður spilaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×