Íslenski boltinn

Brynjar Björn: Eins og menn vildu vera einhvers staðar annars staðar en á vellinum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Brynjar Björn sagði að sínir menn hefðu verið slakir í dag.
Brynjar Björn sagði að sínir menn hefðu verið slakir í dag. vísir/DANÍEL
„Frammistaðan var slök, mjög léleg. Mér fannst leikurinn í heildina lélegur. Víkingur skapaði varla færi en skora tvö mörk eftir horn," sagði Brynjar Björn Gunnarsson þjálfari HK eftir tapið gegn Víkingi í Pepsi Max-deildinni í dag.  

„Sama með okkur, við sköpum sáralítið. Við komumst aðeins inn í leikinn í byrjun seinni hálfleiks en fyrir utan það var þetta gríðarlega lélegur fótboltaleikur.“

Í lið HK vantaði Ásgeir Börk Ásgeirsson og Arnþór Ara Atlason en þeir voru báðir í leikbanni.

„Það var ekki það sem vantaði, heldur eitthvað hugarfar og hvernig menn komu inn í leikinn. Það var eins og menn vildu vera einhvers staðar annars staðar en inni á vellinum og það er mjög óþægilegt fyrir þjálfara að upplifa það.“

„Við klárum bara leikinn, æfum á morgun og förum svo bara í næsta leik. Það er ekkert annað að gera,“ bætti Brynjar Björn við.

Í ljósi úrslita umferðarinnar hlýtur tapið að vera sérstaklega svekkjandi fyrir HK-inga, en með sigri hefðu þeir farið upp í 4.sæti deildarinnar og uppfyrir Stjörnuna á markatölu.

„Við eigum ekki skilið það tækifæri með svona frammistöðu og svona spilamennsku. Hvað sem önnur lið gera og hvernig sem önnur úrslit eru þá skiptir það ekki máli. Þetta var svo dapurt að ég á eiginlega ekki orð yfir það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×