Hinn 17 ára Mason Greenwood skoraði eina mark leiksins þegar Manchester United tók á móti Astana í L-riðli Evrópudeildarinnar í kvöld.
Rúnar Már Sigurjónsson lék allan leikinn fyrir Astana. Skagfirðingurinn hefur verið stuðningsmaður United alla tíð.
United var miklu sterkari aðilinn í leiknum en gekk erfiðlega að koma boltanum framhjá Nenad Eric í marki Astana. Hann varði m.a. tvisvar vel frá Marcus Rashford í fyrri hálfleik. Brasilíski miðjumaðurinn Fred átti einnig skot í slá í upphafi leiks.
Á 73. mínútu fékk Greenwood boltann frá Fred hægra megin í vítateig Astana, fór á hægri fótinn og skoraði framhjá Eric úr þröngu færi. Þetta var fyrsta mark Greenwoods í keppnisleik fyrir United. Hann er jafnframt sá yngsti sem skorar fyrir United í Evrópuleik í sögu félagsins.
Sjö mínútum síðar átti Jesse Lingard skot í slána. Eric varði svo vel frá Lingard þegar tvær mínútur voru eftir.
Fleiri urðu mörkin ekki og United byrjar tímabilið í Evrópudeildinni með sigri.