Sport

Tvær goðsagnir meiddust og Tom Brady var ekki lengi að finna Antonio Brown

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Drew Brees meiðist hér á hendi í leiknum í gær.
Drew Brees meiðist hér á hendi í leiknum í gær. Getty/Sean M. Haffey
Níu lið hafa unnið tvo fyrstu leiki sína á NFL-tímabilinu en önnur umferðin í ameríska fótboltanum fór fram um helgina. Að venju var mikið um dramatík og meiðsli í leikjum deildarinnar.

Liðin sem hafa tvo sigra í fyrstu tveimur leikjum sínum eru Kansas City Chiefs, Baltimore Ravens, New England Patriots og Buffalo Bills í Ameríkudeildinni og Green Bay Packers, San Francisco 49ers, Dallas Cowboys, Los Angeles Rams og Seattle Seahawks í Þjóðardeildinni.

Mörg þeirra eru þar sem menn bjuggust við en byrjun Baltimore Ravens, Buffalo Bills og San Francisco 49ers hefur vakið einna besta athygli á fyrstu tveimur helgum tímabilsins.

Ungur leikstjórnandi, Lamar Jackson, fer fyrir Baltimore Ravens liðinu og þeir sem veðjuðu á Lamar Jackson í Fantasy eru örugglega í skýjunum. Í fyrsta leiknum sundurspilaði hann vörn Miami Dolphins með flottum sendingum en í gær hljóp hann yfir Arizona Cardinals í 23-17 sigri. Lamar Jackson varð þannig fyrsti leikmaðurinn í sögu NFL sem nær að send 270 jarda og hlaupa 100 jarda í sama leiknum.





San Francisco 49ers liðið hefur unnið báða leiki sína á útivelli og það hefur ekki gerst hjá félaginu síðan 1989 en félagið vann einmitt Super Bowl leikinn seinna á því tímabili. Buffalo Bills vann New York Giants á útivelli en í dag þykir það reyndar ekki mikið afrek.

Margir voru með augun á meisturum New England Patriots þótt þeir væru að spila við líklega lélegasta lið deildarinnar, Miami Dolphins. Ástæðan var að útherjinn umdeildi Antonio Brown var að spila sinn fyrsta leik með liðinu. Leikstjórnandinn Tom Brady leitaði að Antonio Brown frá byrjun leiks og fann hann þrisvar í fyrstu sókninni. Antonio Brown skoraði snertimark í fyrsta leiknum en New England Patriots áttu ekki í neinum vandræðum og unnu 43-0 sigur.

New England Patriots liðið lítur ógnvænlega út en liðið hefur unnið tvo fyrstu leikina með stigatölunni 76-3. Annað lið sem hefur farið á kostum er Kansas City Chiefs sem vann 28-10 sigur á Oakland Raiders. Liðið þurfti reyndar bara einn leikhluta af fjórum til að skora öll 28 stigin sín og setti Patrick Mahomes þar NFL-met í sendingajördum í einum leikhluta.





Stærstu meiðslin eru án efa meiðsli leikstjórnenda New Orleans Saints og Pittsburgh Steelers en þar eru á ferðinni tvær miklar goðsagnir í NFL-deildinni. Hvorki Drew Brees hjá Saints eða Ben Roethlisberger hjá Steelers gátu hjálpað sínum liðum í seinni hálfleik og bæði töpuðu þau leikjum sínum.

Drew Brees meiddist á hendi í aðeins annarri sókn New Orleans Saints í leik á móti Los Angeles Rams og Dýrlingarnir áttu ekki mikla möguleika án leikstjórnanda síns. Rams vann leikinn 27-9 og New Orleans Saints tókst því ekki að hefna fyrir tapið í úrslitakeppninni í fyrra.

Ben Roethlisberger meiddist líka á kasthendinni sinni og gat ekki spilað í seinni hálfleik þegar Pittsburgh Steelers tapaði á heimavelli á móti Seattle Seahawks. Hlauparinn James Conner haltraði einnig af velli í fjórða leikhluta og auk þess að missa tvo lykilmenn í meiðsli þá hefur Steelers-liðið tapað tveimur fyrstu leikjum sínum.





Úrslitin í NFL-deildinni um helgina:

Atlanta Falcons - Philadelphia Eagles    24-20    

Denver Broncos - Chicago Bears    14-16    

Los Angeles Rams - New Orleans Saints    27-9    

Oakland Raiders - Kansas City Chiefs    10-28    

Baltimore Ravens - Arizona Cardinals    23-17    

Cincinnati Bengals - San Francisco 49ers    17-41    

Detroit Lions - Los Angeles Chargers    13-10    

Green Bay Packers - Minnesota Vikings    21-16    

Houston Texans - Jacksonville Jaguars    13-12    

Miami Dolphins - New England Patriots    0-43    

New York Giants - Buffalo Bills    14-28    

Pittsburgh Steelers - Seattle Seahawks    26-28    

Tennessee Titans - Indianapolis Colts    17-19    

Washington Redskins - Dallas Cowboys    21-31    

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×