Erlent

Vill að Japanir hætti nýtingu kjarnorku

Atli Ísleifsson skrifar
Shinjiro Koizumi er sonur fyrrverandi forsætisráðherra landsins, Junichiro Koizumi, sem gegndi embætti á árunum 2001 til 2006.
Shinjiro Koizumi er sonur fyrrverandi forsætisráðherra landsins, Junichiro Koizumi, sem gegndi embætti á árunum 2001 til 2006. Getty
Nýr umhverfisráðherra Japans, Shinjiro Koizumi, vill að öllum kjarnaofnum landsins verði lokað til að koma megi í veg fyrir að stórslys á borð við það sem varð í Fukushima árið 2011 endurtaki sig.

„Ég vil láta kanna hvernig við lokum þeim, ekki hvernig við höldum þeim við,“ sagði ráðherrann á sínum fyrsta fundi með fréttamönnum eftir að hann tók við embætti.

Orð ráðherrans eru umdeild innan stjórnarflokksins, en í stefnu flokksins segir að áfram skuli nýta kjarnorku þegar búið er að uppfæra búnað í kjarnorkuverum til að þær standist nýjar og hertar öryggisreglur.

Sex kjarnaofnar í notkun

Alls eru sex kjarnaofnar í notkun í Japan nú, samanborið við 54 fyrir slysið í Fukushima. Unnið er að endurbótum á hinum til að tryggja að þeir standist hinar nýju öryggisreglur.

Shinjiro Koizumi er sonur fyrrverandi forsætisráðherra landsins, Junichiro Koizumi, sem gegndi embætti á árunum 2001 til 2006. Koizumi eldri var einnig á móti nýtingu kjarnorku til raforkuframleiðslu.

Skjálfti að stærðinni 9,0 undan strönd Japans varð til þess að mikil flóðbylgja eyðilagði kjarnorkuverið í Fukushima þann 11. mars 2011. Mikið magn geislavirkra efna fór þar út í umhverfið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×