Landssamband lögreglumanna samþykkti einnig vantraust á Harald Johannessen ríkislögreglustjóra á fundi sínum í gær. Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, segir niðurstöðu fundarins óháða ákvörðun lögreglustjóra. „Það var búið að taka þá ákvörðun áður en nokkur vissi um viðbrögð þeirra. Þetta er algjörlega sjálfstæð ákvörðun,“ segir Snorri. „Það er búin að vera óánægja lengi innan lögreglunnar og ólga innan stéttarinnar með ýmislegt gagnvart embætti ríkislögreglustjóra.“
Snorri tiltekur ekki einstök mál sem ástæðu vantraustsyfirlýsingarinnar. „Þetta er sambland ýmissa mála. Gagnvart lögreglumönnum var það þetta viðtal ríkislögreglustjóra í Morgunblaðinu kornið sem fyllti mælinn endanlega.“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, segir stöðuna grafalvarlega.
„Þessar vantraustsyfirlýsingar eru fordæmalaus staða sem gerir það að verkum dómsmálaráðherra hlýtur að þurfa að velta því fyrir sér hvort hagsmunir lögreglunnar í heild vegi ekki þyngra en hagsmunir Haraldar Johannessen,“ segir Þórhildur Sunna.
„Mér finnst útilokað að jafn margir háttsettir embættismenn og raun ber vitni grípi til þess örþrifaráðs að lýsa yfir vantrausti á ríkislögreglustjóra án þess að eitthvað alvarlegt liggi þar að baki sem verður að skoða mjög vel ofan í kjölinn.“
Boltinn sé nú í höndum dómsmálaráðherra. „Nú þýðir ekkert að skipa einhverja nefnd til að hugsa málið. Dómsmálaráðherra verður að svara til hvaða aðgerða hún ætlar að grípa án tafar til að leysa úr þessari stöðu.“
Ekki náðist í Harald Johannessen ríkislögreglustjóra við vinnslu fréttarinnar. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra gaf ekki kost á viðtali.