Íslenski boltinn

KA ekki tapað leik eftir að Óli Stefán breytti um leikkerfi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gengi KA hefur breyst til batnaðar eftir að Óli Stefán skipti um leikkerfi.
Gengi KA hefur breyst til batnaðar eftir að Óli Stefán skipti um leikkerfi. vísir/bára
KA lyfti sér upp í 5. sæti Pepsi Max-deildar karla með 2-3 sigri á Víkingi í gær. KA-menn urðu þar með fyrsta liðið til að vinna Víkinga í Víkinni í sumar.

KA-menn eru ósigraðir í síðustu sex leikjum sínum; unnið þrjá og gert þrjú jafntefli.

Eftir 4-0 tap fyrir Breiðabliki á Kópavogsvelli í 15. umferð breytti Óli Stefán Flóventsson, þjálfari KA, um leikaðferð. Eftir að hafa leikið með þriggja manna vörn í fyrstu 15 umferðunum skipti hann yfir í fjögurra manna í leiknum gegn Stjörnunni í 16. umferð. KA vann leikinn, 4-2.

Frá því Óli skipti um leikkerfi hefur KA ekki tapað leik og aðeins fengið á sig sex mörk.

Fyrri hluta tímabils þurfti KA oft og iðulega að gera breytingar á varnarlínu sinni. Í síðustu leikjum hafa miðverðir KA haldist heilir og stöðugleikinn aftast á vellinum því mun meiri.

Í fjórum af síðustu sex leikjum hafa Torfi Tímoteus Gunnarsson og Callum Williams myndað miðvarðapar KA. Williams hefur spilað síðustu sex leiki frá byrjun til enda. Í leikjunum tveimur sem Torfi missti af leystu Brynjar Ingi Bjarnason og Hallgrímur Jónasson hann af.

Norðmaðurinn Alexander Groven hefur leikið sem vinstri bakvörður og Andri Fannar Stefánsson og Hrannar Björn Steingrímsson hafa skipt stöðu hægri bakvarðar á milli sín.

Vinni KA Fylki í lokaumferðinni á laugardaginn endar liðið í 5. sæti. Það yrði besti árangur KA í efstu deild síðan liðið endaði í 4. sæti sem nýliðar 2002.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×