Íslenski boltinn

Ólafur: Það kemur í ljós

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ólafur Jóhannesson er þjálfari Vals.
Ólafur Jóhannesson er þjálfari Vals. vísir/bára
„Þetta voru erfiðar aðstæður, mikill vindur og rigning með á tímabili. Þá snýst þetta meira um hvað menn vilja, eru duglegir og hlaupa mikið. Maður hefur litla stjórn á boltanum,“ sagði Ólafur Jóhannesson þjálfari Vals eftir jafnteflið í Grindavík í dag.

„Mér fannst bæði lið spila fínan leik miðað við aðstæður. Auðvitað viljum við vinna eins og þeir, ég held að jafntefli hafi verið sanngjarnt,“ bætti Ólafur við en hans menn voru þó heppnir í lok leiks í dag þegar Grindavík gerði mikla orrahríð að marki Vals.

„Það lá svolítið á okkur eftir nokkrar hornspyrnur og það er eins og gengur gerist. Stundum fellur þetta með mönnum og stundum ekki.“

Síðasti leikur Valsara skiptir litlu máli fyrir þá hvað varðar stöðuna í deildina þar sem þeir sigla fremur lygnan sjó.

„Það er einn leikur af tuttugu og tveimur. Við förum og undirbúum okkur fyrir hann eins og alvöru menn og förum í þann leik til þess að vinna.“

Ólafur hefur verið mikið spurður út í framtíð sína hjá Valsmönnum og lítið verið um svör annað en að málin verði rædd eftir tímabilið.

„Það verður rætt eftir tímabil.“

Ertu ósáttur með að vera ekki búinn að fá svör frá Valsmönnum varðandi framhaldið?

„Nei nei, ég er búinn að fá svör og það verður eftir tímabil.“

Hefur þú áhuga á að halda áfram sem þjálfari?

„Það kemur í ljós,“ sagði Ólafur ákveðinn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×