Íslenski boltinn

Yfir­lýsing frá Gróttu: Lögðum mikið í sölurnar til að tryggja á­fram­haldandi veru Óskars

Anton Ingi Leifsson skrifar
Óskar Hrafn Þorvaldsson.
Óskar Hrafn Þorvaldsson. mynd/grótta
Óskar Hrafn Þorvaldsson er búinn að skrifa undir fjögurra ára samning við Breiðablik en þetta var staðfest í morgun.

Óskar Hrafn hefur starfað sem þjálfari meistaraflokks Gróttu undanfarin tvö ár. Hann byrjaði á að koma þeim upp úr 2. deildinni og vann svo Inkasso-deildina á síðustu leiktíð.

Það var svo tilkynnt um það í morgun að Óskar myndi flytja sig um set og tekur hann við liði Blika af Ágústi Gylfasyni en í yfirlýsingu Gróttu má lesa að þeir hafi reynt margt til þess að halda Óskari.

„Í morgun tilkynnti Óskar Hrafn Þorvaldsson okkur að hann hefði ákveðið að segja upp samningi sínum við Gróttu og sigla á önnur mið. Stjórn deildarinnar lagði mikið í sölurnar til að tryggja áframhaldandi veru Óskars Hrafns í herbúðum félagsins, en virðir ákvörðun hans,“ segir í yfirlýsingunni.

„Óskar vann frábært starf hjá félaginu, sem við þökkum honum fyrir hönd leikmanna, starfsfólks, stjórnar og stuðningsmanna. Unnið er að ráðningu eftirmanns hans í starfið.“

Yfirlýsinguna í heild sinni má sjá hér að neðan:

Í morgun tilkynnti Óskar Hrafn Þorvaldsson okkur að hann hefði ákveðið að segja upp samningi sínum við Gróttu og sigla á önnur mið. Stjórn deildarinnar lagði mikið í sölurnar til að tryggja áframhaldandi veru Óskars Hrafns í herbúðum félagsins, en virðir ákvörðun hans. Óskar vann frábært starf hjá félaginu, sem við þökkum honum fyrir hönd leikmanna, starfsfólks, stjórnar og stuðningsmanna. Unnið er að ráðningu eftirmanns hans í starfið.

Framundan er spennandi ævintýri fyrir hið unga og hugrakka lið félagsins. Við finnum þann mikla meðbyr sem er með liðinu og starf okkar næstu misseri miðar að því að undirbúa drengina eins og best verður á kosið fyrir Pepsi max deildina. Allt Gróttufólk stendur þétt við bakið á sínum mönnum og mun mæta þeim nýju áskorunum sem bíða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×