Gunnar Magnús Jónsson verður áfram við stjórnvölinn hjá kvennaliði Keflavíkur í fótbolta.
Gunnar skrifaði undir nýjan tveggja ára samning við knattspyrnudeild Keflavíkur. Hann hefur þjálfað kvennaliðið í fjögur ár.
Keflavík féll úr Pepsi Max-deild kvenna í sumar og leikur í Inkasso-deildinni á næsta ári.
„Það er mikill fengur að halda slíkum ástríðumanni fyrir þjálfun og fótbolta hjá félaginu og er liður í því verkefni að koma stelpunum strax upp í deild þeirra bestu, þar sem þær eiga sannarlega heima,“ segir í tilkynningu frá Keflavík.
Í sumar fengu Keflvíkingar 13 stig og voru fimm stigum frá því að halda sér uppi.
Keflavík hefur einnig framlengt samning fyrirliðans, Natöshu Anasi. Hún hefur leikið með Keflavík undanfarin þrjú ár en var áður í herbúðum ÍBV.
Íslenski boltinn