Skoðun

Bylting á skólastarfi

Kolbrún Baldursdóttir skrifar
Samfélagið er mikið til skipulagt á þann veg að vinna og skóli hefjist um klukkan 8 á morgnana. Það er þó ekkert heilagt við það frekar en annað. Því verður velt upp á fundi borgarstjórnar í dag hvort fleiri skólar eru hugsanlega tilbúnir að seinka skólabyrjun og hefja kennslu kl. 9:00.

Flokkur fólksins leggur fram tillögu þess efnis að skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar eigi samtal við skólasamfélagið í Reykjavík með það að markmiði að leita að fleiri skólum sem eru tilbúnir að seinka skólabyrjun og hefja kennslu klukkan 9:00.

Vissulega felst hagkvæmni í því að allir hefji daginn á sama tíma. Hefjist kennsla kl. 9:00 kann ákveðinn vandi að skapast hjá einhverjum foreldrum yngri barna sem þurfa sjálfir að mæta í vinnu kl. 8:00. Hann væri þó hægt að leysa með því að bjóða upp á morgungæslu milli kl. 8:00 og 9:00 fyrir þau börn sem þess þurfa.

Einhverjir skólar hafa nú þegar seinkað skólabyrjun og skólastjórnendur segja reynsluna góða. Börnin komi hressari í skólann og séu virkari. Það sé rólegra yfirbragð á nemendum og kennarar upplifi minna álag. Þá stuðlar slík breyting einnig að auknu öryggi nemenda á ferð sinni til skóla ef þeir ferðast við bjartari skilyrði. Seinkun/breyting á upphafi vinnutíma kennara gæti einnig dregið úr umferðarálagi í borginni á háannatíma.

Ef kennsla hefst kl. 9:00 þá gefst þeim kennurum sem vilja, ráðrúm til þess að skipuleggja kennsludaginn í stað þess að þurfa að hefja kennslu um leið og vinna hefst á morgnana.

Mikilvægt er að kanna viðhorf foreldra, kennara og nemenda til seinkunar skólabyrjunar og athuga hvort leita þurfi lausna til að samrýma seinkun skólabyrjunar við íþrótta- og tómstundaiðkun barna eftir skóla. Einnig þarf að leita leiða til að stytta vinnutíma kennara að kennslu lokinni.

Það er því að mörgu að huga og því full ástæða til að hefja vinnuna sem fyrst. Það er mat flestra þeirra sem starfa í skólum sem hefja kennslu seinna að seinkunin hafi leitt til byltingar á skólastarfinu. Það er því full ástæða til að skóla og frístundarsvið kanni með markvissum hætti hvort fleiri skólar sýna áhuga á að hefja skóladaginn kl. 9:00.

Höfundur er borgarfulltrúi Flokks fólksins.




Skoðun

Sjá meira


×