Erlent

Lög og réttlæti lýsir yfir sigri

Atli Ísleifsson skrifar
Jaroslaw Kaczynski er formaður PiS.
Jaroslaw Kaczynski er formaður PiS. AP
Pólski stjórnarflokkurinn Lög og réttlæti (PiS) hefur lýst yfir sigri í þingkosningunum sem fram fóru í landinu í gær.

Samkvæmt fyrstu tölum fékk flokkurinn, sem er íhaldssamur og þjóðernissinnaður, rúmlega 40 prósent atkvæða og mun að óbreyttu auka þingstyrk sinn í neðri deild pólska þingsins. Stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, Borgarabandalagið (KO) virðist hafa fengið um fjórðung atkvæða.

Ríkisstjórn PiS hefur á síðustu árum átt í útistöðum við Evrópusambandið, meðal annars vegna breytinga á dómskerfi landsins, auk þess að sæta gagnrýni vegna harðrar afstöðu sinnar til hinsegin fólks. Telur PiS að réttindi hinsegin fólks ógni „hefðbundnum“ pólskum fjölskyldum og gildum.

„Við höfum sigrað,“ sagði Jaroslaw Kaczynski, formaður PiS, við stuðningsmenn sína í höfuðstöðvum flokksins í höfuðborginni Varsjá. „Fjögurra ára erfiði bíður okkar. Pólland verður að breytast meira og verður að breytast til batnaðar,“ sagði Kaczynski.

Grzegorz Schetyna, einn leiðtoga Borgarabandalagsins, ávarpar stuðningsmenn í gærkvöldi.AP

Fjölgar í þingflokki PiS

Í frétt BBC segir að þegar búið er að birta niðurstöður úr 42 prósent kjördæmanna virðist PiS hafa bætt við sig fylgi, og mun því fjölga í þingflokki hans sem taldi 231 þingmaður í neðri deild þingsins þar sem 460 þingmenn eiga sæti.

Reiknað er með að vinstribandalagið Lewica verði þriðji stærsti flokkurinn á þingi Póllands. Braust út mikill fögnuður þegar tölur voru kunngjörðar, en vinstri flokkar duttu út af þingi í kosningunum 2015 vegna klofnings og sundrungar.

Kosningaþátttaka var um 60 prósent samkvæmt útgönguspám.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×