Erlent

Tusk fordæmir hótanir Erdogan

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins.
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins. Getty
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, hefur fordæmt orð Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta þar sem hann hótaði að koma af stað bylgju flóttafólks til Evrópu, haldi ríki Evrópu áfram að gagnrýna aðgerðir Tyrklands í Sýrland.

„Tyrkland verður að skilja að áhyggjur okkar snúa að því að þeirra aðgerðir geta leitt til enn eins mannúðarslyss, sem ekki er ásættanlegt,“ sagði Tusk á blaðamannafundi í heimsókn hans til Kýpur.

„Við munum heldur ekki sætta okkur við að flóttamenn séu notaðir til að beita okkur þrýstingi,“ segir Tusk.

Erdogan hótaði á fimmtudag að opna landamærin inn til Evrópu eftir að leiðtogar fordæmdu sókn Tyrkja inn í norðausturhluta Sýrlands.

„Halló, ESB, vaknið. Ég segi það enn einu sinni. Ef þið reynið enn einu sinni að lýsa aðgerð okkar sem innrás, þá gerið þið okkur létt fyrir. Þá opnum við dyrnar og sendum 3,6 milljónum flóttamanna til ykkar,“ sagði Erdogan í ræðu í tyrknesku höfuðborginni Ankara.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×