Innlent

Bæjarstjóri vill göng eftir sjö ár

Ari Brynjólfsson skrifar
Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs.
Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs. aðsend
„Fjarðarheiðargöng skipta gífurlegu máli fyrir íbúana á svæðinu, en þau skipta einnig miklu máli fyrir farþega- og vöruflutninga til og frá landinu um Seyðisfjörð. Það er mjög ánægjulegt að nú sé komin niðurstaða varðandi hvaða leið verður farin og hvernig hún verður áfangaskipt,“ segir Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs og formaður samstarfsnefndar sveitarfélaga á Austurlandi.

Göngin, sem verða á milli Egilsstaða og Seyðisfjarðar, verða lengstu göng á landinu, 13,5 kílómetrar. Í svari Sigurðar Inga Jóhannssonar samgönguráðherra við fyrirspurn Fréttablaðsins segir að í drögum að samgönguáætlun sé gert ráð fyrir fjármagni til að klára undirbúning ganganna. Hönnunarferli tekur rúm tvö ár og bindur Björn vonir við að þau verði tilbúin eftir sjö ár. Í skýrslu starfshóps um gangakosti á Austurlandi er verðmiðinn sagður um 34 milljarðar.

„Það er mikilvægt að halda áfram og skapa hringtengingu milli fjarða, þá erum við ekki bara að tala um göng undir Fjarðarheiði heldur einnig tengingu yfir í Mjóafjörð og þaðan yfir í Norðfjörð,“ segir Björn. Alls myndu öll þrenn göngin kosta samtals 64 milljarða króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×