Laugardalslaug verður lokuð á mánudag vegna tengingar hitaveitu þar sem búast megi við að heitavatnsþrýstingur verði lágur í Vogahverfi, Laugarási og við Laugardal í Reykjavík. Þá má reikna með að heitavatnslaust verði þar sem byggð stendur hærra.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Veitna. Sé verið að tengja nýja aðalæð hitaveitunnar við Elliðaárbrýr og flytji hún mestallt það vatn sem notað er í hverfinu.
„Til að minnka áhrifin á neytendur er vatni veitt inn í hverfin eftir öðrum leiðum. Þær eru þó ekki eins afkastamiklar og því má búast við lækkuðum þrýstingi og jafnvel heitavatnsleysi, einkum í þeim húsum sem hæst standa á Laugarásnum. Vinnan hefst með því að tæma lagnir á mánudagsmorgun klukkan 6:00 og vonast er til að hægt verði að hleypa á nýju lögnina klukkan 20:00 sama dag og það mun taka einhverja klukkutíma að ná upp fullu þrýstingi á kerfið.
Við brýnum fyrir fólki að hafa glugga lokaða og útidyr ekki opnar lengur en þörf krefur til að koma í veg fyrir að það kólni. Þar sem heitavatnslaust verður er ráðlegt að hafa skrúfað fyrir alla heitavatnskrana til að draga úr hættu á slysi eða tjóni þegar vatnið kemst á að nýju,“ segir í tilkynningunni.
Laugardalslaug lokuð á mánudag vegna lágs heitavatnsþrýstings
Atli Ísleifsson skrifar
