Hvorki Viðar Örn Kjartansson né félagar hans í Rubin Kazan fundu leiðina í markið í rússnesku deildinni í dag en Rubin Kazan gerði þá markalaust jafntefli á útivelli á móti Krylya Sovetov.
Viðar Örn Kjartansson spilaði allan tímann en hann var einn upp á topp í leikkerfinu 4-5-1.
Viðar hefur ekki skorað deildarmark fyrir Rubin Kazan síðan 29. júlí eða í meira en þrjá mánuði en þetta var ellefti markalausi leikurinn hans í röð í rússnesku deildinni.
Rubin Kazan er áfram í 11. sæti rússnesku deildarinnar með 17 stig en með sigri hefði liðið hoppað upp í sjötta sæti.
Vandamál liðsins liggur aðallega að skora mörk en liðið er samtals með aðeins átta mörk í fimmtán deildarleikjum á tímabilinu og hefur ekkert lið í deildinni skorað svo fá mörk.
Þetta var þriðja markalausa jafntefli liðsins í röð og ennfremur það fjórða í síðustu fimm leikjum.
Viðar Örn hefur ekki skorað í meira en þrjá mánuði
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
