Enski boltinn

Úrslitin í gær gera jólamánuðinn enn erfiðari fyrir Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Getty/Robbie Jay Barratt
Liverpool tókst ekki að vinna Napoli á Anfield í gær og mistókst því að tryggja sér sæti í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Liverpool bíður því hreinn úrslitaleikur í Ölpunum í desember.

Það verður nóg að gera hjá Liverpool liðinu í jólamánuðinum og jafnteflið í gær létti vissulega ekki á pressunni á toppliði ensku úrvalsdeildarinnar.

Liverpool má ekki tapa leiknum í Salzburg 10. desember næstkomandi því þá yrðu Evrópumeistararnir að sætta sig við að spila í Evrópudeildinni eftir áramót í stað úrslitakeppni Meistaradeildarinnar þar sem liðið hefur farið alla leið í úrslitaleikinn undanfarin tvö tímabil.

„Ég er á mínu fjórða ári og það hefur aldrei verið auðvelt að komast áfram í Meistaradeildinni. Ég veit að fólk óskaði þess að við gætum tryggt sætið í kvöld og fengið hátíðarleik í Salzburg en slíkt gerist bara aldrei,“ sagði JürgenKlopp, knattspyrnustjóri Liverpool, eftir leikinn í gær.





Leikurinn á móti Red Bull Salzburg er upp á líf eða dauða í Meistaradeildinni og bætist ofan þá mjög þétta dagskrá Liverpool í desember. Það er ekki auðvelt að spila í Salzburg þar sem heimamenn hafa unnið 8 af 10 leikjum sínum og skorað fimm mörk eða fleiri í sjö þeirra. Red Bull Salzburg skoraði líka þrjú mörk hjá Liverpool í fyrri leiknum á Anfield eftir að hafa lent 3-0 undir.

„Ef við höfum metnað fyrir Meistaradeildinni þá þurfum við að sýna það í Salzburg,“ sagði JürgenKlopp.

Desember verður svakalegur mánuður fyrir Liverpool liðið og fari allt á besta veg þá getur Liverpool komið út úr honum sem heimsmeistari félagsliða, með sæti í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar, komið í undanúrslit deildabikarsins og áfram með gott forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

Það er aftur á móti ljóst að ef JürgenKlopp dreifir ekki álaginu á leikmenn sína þá á hann á hættu að missa ekki bara af mikilvægum stigum í mánuðinum heldur einnig að missa lykilmenn í meiðsli.

Fabinho haltraði af velli í gær og MoSalah hefur einnig verið að glíma við meiðsli. Klopp þarf að samtvinna það að ná úrslitum og að nota allan leikmannahópinn til að ná metnaðarfullum markmiðum Liverpool á næstu vikum.

Hér fyrir neðan má sjá þessa mögnuðu leikjadagskrá Liverpool á næstunni.

30. nóvember - Deildin - Brighton (heima)

4. desember - Deildin - Everton (heima)

7. desember - Deildin - Bournemouth (úti)

10. desember - Meistaradeild - Red Bull Salzburg (úti)

14. desember - Deildin - Watford (heima)

17. desember - Deildabikar - Aston Villa (úti)

18. desember - Heimsmeistarakeppni félagsliða - Undanúrslit

21. desember - Heimsmeistarakeppni félagsliða - Leikur um sæti

26. desember - Deildin - Leicester (úti)

29. desember - Deildin - Wolves (heima)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×