Viðskipti innlent

Tekjur í hagkerfinu vaxa og eigið fé fyrirtækja styrkist um tíu prósent

Jón Þórisson skrifar
Eigið fé í hagkerfinu jókst í heild
um ríflega tíu prósent.
Eigið fé í hagkerfinu jókst í heild um ríflega tíu prósent. Vísir/vilhelm
Heildarvöxtur tekna í viðskiptahagkerfinu var um 6,2 prósent á síðasta ári miðað við árið á undan. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar.

Samtals voru tekjurnar 4.400 milljarðar króna í fyrra. Heildartekjur sjávarútvegs jukust mest, um 44 milljarða króna, eða fimmtán prósent.

Tekjur í tækniframleiðslu jukust um þrettán milljarða króna, sem er þrettán prósent vöxtur og tekjur af málmframleiðslu jukust um 29 milljarða króna, eða sem samsvarar 13 prósent hækkun. Þá hækkuðu heildartekjur einkennandi greina ferðaþjónustu um 31 milljarð króna sem er fimm prósent vöxtur.

Eigið fé í hagkerfinu jókst í heild um ríflega tíu prósent og var í lok árs 3.300 milljarðar króna.

Eigið fé heildsöluverslana jókst um 24 milljarða króna milli ára, eða um fimmtung, í tækniframleiðslu jókst eigið fé um 28 milljarða króna sem sömuleiðis er fimmtugsaukning. Í smásöluverslun jókst eigið fé um 28 milljarða króna, eða sextán prósent. Eigið fé í ferðaþjónustu lækkaði á hinn bóginn um 13 milljarða króna í fyrra og er það samdráttur um ellefu prósent. Það má að mestu leyti rekja til lækkunar eigin fjár félaga í flugrekstri að því er Hagstofan segir.

Launakostnaður jókst nokkuð á árinu 2018, eða um 61 milljarð króna. Í einstaka greinum eykst launakostnaður mest í tækniframleiðslu, eða um fimmtán prósent, tólf prósent í ferðaþjónustu og ellefu prósent í sjávarútvegi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×