Erlent

Reykjar­mökkur yfir S­yd­n­ey og Adela­i­de

Atli Ísleifsson skrifar
Óperuhúsið í Sydney.
Óperuhúsið í Sydney. AP
Reykjarmökkurinn frá kjarreldunum sem nú brenna víðs vegar um Ástralíu liggur nú yfir stórborgunum Sydney og Adelaide.

Í Sydney vöknuðu íbúar upp við þykkan mökk og eru loftgæðin í borginni sögð hættuleg. Nú er svo komið að eldhætta er í öllum sex ríkjum Ástralíu og mjög mikil í fjórum þeirra.

Sex hafa látið lífið í eldunum en verst hefur ástandið verið í New South Wales og í Queensland.

Um fimm milljónir manna búa í Sydney og hvetja heilbrigðisyfirvöld fólk til að halda sig eins mikið innandyra og mögulegt er.

Efsta hættustigi hefur nú verið lýst yfir í Viktoríu-fylki í suðurhluta landsins og er það í fyrsta sinn í áratug sem slíkt gerist þar, en árið 2009 létu 179 manns lífið í miklum eldi sem blossaði þar upp.

Scott Morrison, forsætisráðherra landsins, varði á ný stefnu stjórnar sinnar í loftslagsmálum í dag. Fyrrverandi slökkviliðsstjórnar og fleiri hafa gagnrýnt stefnuna og segja að hana hafa átt þátt í því ástandi sem upp sé komið. Segja þeir nauðsynlegt að grípa til harðari aðgerða til að stemma stigu við útblæstri gróðurhúsalofttegunda.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×