Slysið varð í apríl í fyrra þegar sprenging varð í hreyfli flugvélar flugfélagsins Southwest Airlines á leið frá New York til Dallas í Bandaríkjunum. Við það kom gat á vélina, sem var af gerðinni Boeing 737 NG, og bandarísk kona, Jennifer Riordan, hálfsogaðist út um gatið og lést. Fram hefur komið að farþegar vélarinnar hafi náð að halda í hana og toga hana aftur inn.
Sjá einnig: „Þau segja að það sé gat og einhver hafi farið út“

Í ljósi þessa beinir flugslysanefndin því til Boeing að endurhanna mótorhlífar allra flugvéla sinna af gerðinni Boeing 737 NG. Þannig eigi að tryggja burðarþol hlífanna, sem umlykja hreyflana, og minnka líkur á því að slys verði þegar blað losnar úr hreyfli.
Þess er krafist að Boeing innleiði þessar breytingar í hönnun á nýjum 737 NG-vélum. Þá verður Boeing einnig gert að skipta út mótorhlífum eldri véla af sömu gerð.
Sérstaklega er tekið fram í fréttum um skýrsluna vestanhafs að tilmæli nefndarinnar nái ekki til 737 Max-flugvéla Boeing, sem voru kyrrsettar um allan heim í kjölfar tveggja mannskæðra flugslysa. Greint var frá því í október að Icelandair geri ekki ráð fyrir því að Max-vélarnar verði teknar aftur í rekstur fyrr en í lok febrúar á næsta ári.
Í yfirlýsingu frá Boeing vegna skýrslunnar segir að umræddar flugvélar séu þegar öruggar. Til að koma til móts við tilmæli flugslysanefndarinnar sé þó unnið að „hönnunarumbótum“.