Ísraelsher segist hafa skotið niður fjórar eldflaugar sem skotið hafi verið að Ísrael frá Sýrlandi í gær. Því hafi árásirnar verið gerðar í nótt og nú séu þeir undirbúnir fyrir frekari aðgerðir Írana í hefndarskyni.
„Ég hef sagt að ef einhver skaði okkur, munum við skaða hann,“ sagði Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael í morgun.
Skotmörkin sem um ræðir eru sögð tengjast Uppreisnarvörðum Íran og eitt skotmarkið var á alþjóðaflugvelli Damaskus en Ísraelar segja þá aðstöðu hafa verið notaða til að flytja vopn og annan búnað frá Íran til Sýrlands og annarra ríkja á svæðinu.
Herinn segir einnig að þegar loftvarnir Sýrlands voru notaðar til að skjóta á orrustuþotur Ísrael hafi verið skotið á þær einnig. Þar hafi um sex skotmörk verið að ræða.
Ísraelar hafa lengi gert fjölmargar árásir í Sýrlandi sem beinast gegn Írönum þar en í flestum tilfellum tjá þeir sig ekki um árásirnar. Mörgum þeirra árása er ætlað að sporna gegn vopnasendingum til Hezbollah, sem Íranar styðja. Þá hafa þeir varað Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, við því að skjóta á orrustuþotur Ísrael.
We hold the Syrian regime responsible for the actions that take place in Syrian territory and warn them against allowing further attacks against Israel.
We will continue operating firmly and for as long as necessary against the Iranian entrenchment in Syria.
— Israel Defense Forces (@IDF) November 20, 2019
Nokkrir hafi særst í árásunum.
„Skilaboð okkar til leiðtoga Íran eru einföld,“ sagði Naftali Bennett, varnarmálaráðherra Ísrael. „Þið eruð ekki ónæmir lengur. Hvert sem þið sendið kolkrabba-arma ykkar, þá munum við höggva þá af.“
Hér má sjá myndband frá Damaskus í nótt sem sýnir loftvarnaeldflaug sem virðist falla til jarðar í borginni skömmu eftir skot. Times of Israel segir mögulegt að rekja megi mannfall meðal almennra borgara til þessa atviks.