„Maður getur tekið við ýmsu í pólitík en það er ekki hægt að láta það yfir sig ganga að verið sé að rýra mannorð manns fyrir framan alla og koma fram með ósannindi,“ segir Aron Leví Beck, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar. Hann er nú að fara yfir það með lögmanni sínum hvort hann muni stefna Vigdísi Hauksdóttur, oddvita Miðflokksins í Reykjavík, fyrir meiðyrði vegna ummæla sem hún lét falla um Aron Leví á fundi borgarstjórnar 19. nóvember síðastliðinn.
Líkt og Fréttablaðið greindi frá í gær sendi lögmaður Arons Leví bréf á Vigdísi í síðustu viku þar sem henni var gefinn frestur á að biðjast afsökunar og koma með yfirlýsingu um bætta hegðun.
Vigdís ætlar ekki að verða við því. „See you in court! Þetta er þannig mál,“ segir Vigdís.

Aron Leví þvertekur fyrir að hafa staðið í þeirri spillingu sem Vigdís sakar hann um í kringum fyrirhugað verkefni ALDIN Biodome við Stekkjarbakka. Sem nemandi í skipulagsfræðum tók hann þátt í rannsókn á nýtingarmöguleikum affallsvatns úr Laugardalslaug við verkefnið. Vill Vigdís meina að hann vinni að því að koma því í gegnum kerfið, til þess sé hann í stjórnmálum. Aron segir að hann hafi alltaf vikið af fundum þegar málið var til umfjöllunar einmitt til að koma í veg fyrir tortryggni.
„Hvar á að draga línuna? Eru bara engar línur í pólitík?“ spyr Aron Leví. „Hún er að draga mína persónu þarna inn án þess að hafa nokkuð fyrir sér. Hún er á atkvæðaveiðum, er að sækja í fólk sem er reitt út í kerfið, það er bara popúlismi.“
Telur hann að Vigdís sé með sig á heilanum, en hún hefur endurtekið málflutning sinn í útvarpsviðtölum á Útvarpi Sögu og á Bylgjunni. „Henni er skítsama um borgarbúa. Hún vill bara pönkast í stjórnsýslunni. Hún var með Dag B. Eggertsson á heilanum og núna er hún komin með mig á heilann. Einhvers staðar hljóta að vera einhver mörk á vitleysunni.“