Matur

Uppskrift: Beef Wellington

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Þessa uppskrift má finna í bókinni Í eldhúsi Evu.
Þessa uppskrift má finna í bókinni Í eldhúsi Evu. Mynd/Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Eva Laufey Kjaran gaf á dögunum út bókina Í eldhúsi Evu. Hér deilir hún einni uppskrift úr bókinni með lesendum Vísis, Beef Wellington. Við gefum henni orðið.

Jólamaturinn minn í öllu sinni veldi. Dúnmjúk og safarík nautalund með sveppafyllingu, vafin í hráskinku og pökkuð inn í gómsætt smjördeig. Steikin stendur algjörlega ein og sér en hún er æðisleg með góðri sósu og ferskum aspas. Algjörlega fullkomin máltíð!



Sveppamauk

  • 1 box sveppir, um 250 g
  • 2 portóbellósveppir
  • 2 stilkar sellerí
  • 1 msk smátt söxuð steinselja
  • ½ laukur
  • 1 dl brauðrasp
  • 1 msk smjör



Nautalund

  • 800 g  nautalund (fullhreinsuð)
  • 1 plata smjördeig
  • 10 sneiðar af hráskinku
  • Salt og pipar
  • Góð ólífuolía
  • 2 eggjarauður

Aðferð:

  1. Setjið öll hráefnin sem eiga að fara í sveppamaukið fyrir utan brauðrasp í matvinnsluvél og maukið fínt.
  2. Hitið smjör á pönnu og steikið í smá stund, þerrið sveppablönduna svolítið með eldhúspappír og því næst fer brauðraspið saman við.  
  3. Setjið fyllinguna í skál og inn í kæli í lágmark hálftíma.
  4. Hitið ólífuolíu á pönnu og steikið nautalundina á öllum hliðum og brúnið, kryddið til með salti og pipar.
  5. Leggið plastfilmu á borðið sem er um það bil 40x40cm, athugið þið þurfið nokkrar filmur til þess að móta þessa stærð.
  6. Raðið hráskinkunni á plastfilmuna, smyrjið sveppafyllinguna ofan á skinkuna og því næst fer nautalundin yfir og þið hjúpið lundina með því að leggja plastfilmuna varlega yfir nautalundina og rúlla svo plastinu mjög fast utan um hana.
  7. Setjið rúlluna í ísskáp í lágmark klukkustund (ég er oft með hana í 4 – 5klst)
  8. Fletjið smjördeigið út með kefli þannig að smjördeigið passi utan um lundina, sækið lundina í ísskápnum og náið henni úr plastfilmunni. Setjið nautalundina fyrir miðju á smjördeiginu og hjúpið lundina með smjördeiginu. (athugið að samskeytin séu undir rúllunni)
  9. Lokið smjördeiginu í báða enda og setjið á pappírsklædda ofnplötu.
  10. Penslið rúlluna með eggjarauðu og skerið endilega rendur í deigið eða útbúið annað mynstur að vild.
  11. Saltið deigið og setjið inn í ofn við 200°C í 25-30 mínútur.

Leyfið kjötinu að hvíla í lágmark tíu mínútur áður en þið berið það fram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×