Enski boltinn

Fyrrum lærisveinar Hermanns og Sol Campbell hóta því að skrópa í næsta leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sol Campbell og Hermann Hreiðarsson í bikarúrslitaleiknum sem þeir unnu saman með Portsmouth árið 2008.
Sol Campbell og Hermann Hreiðarsson í bikarúrslitaleiknum sem þeir unnu saman með Portsmouth árið 2008. Getty/ AMA/Corbis
Enska fótboltafélagið Macclesfield Town er í miklum fjárhagsvandræðum og hefur ekki náð að borga leikmönnum sínum laun. Nú hóta þessir leikmenn þvi að mæta ekki í næsta leik.

Leikmenn hafa sent inn skriflega hótun þar sem kemur fram að þeir muni ekki mæta í leikinn á móti Crewe Alexandra á laugardaginn en sá leikur er í ensku D-deildinni.

Sol Campbell hætti óvænt sem knattspyrnustjóri Macclesfield Town í upphafi tímabils og er núna tekinn við liði Southend United. Aðstoðarmaður hans er Hermann Hreiðarsson.

Leikmenn og starfsmenn Macclesfield Town hafa ekki fengið borgað fyrir síðasta mánuð og þeir fengu launin greidd alltof seint í mánuðinum á undan.





Þetta er ekki í fyrsta sinn sem leikmennirnir grípa til þessara aðgerða en það gerðu þeir einnig fyrir deildarleik gegn Mansfield Town og bikarleik gegn Kingstonian. Í síðarnefnda leiknum þurfti Macclesfield Town að tefla fram óreyndu varaliði en eigandi Macclesfield Town gerði upp við leikmenn aðalliðsins í tíma fyrir hinn leikinn.

Þetta var í síðasta mánuði en nú er aftur komin upp þessi erfiða staða. Leikirnir í nóvember fóru báðir fram en leikurinn á móti Crewe gæti verið í hættu.

Macclesfield Town var í fallsæti þegar Sol Campbell og Hermann Hreiðarsson tóku við en þeim tókst að halda liðinu uppi. Núna er Macclesfield Town er í kringum miðja deild með 23 stig út 19 leikjum.

Það kom í ljós í réttarsal á dögunum að Macclesfield Town skuldi Sol Campbell 180 þúsund pund eða næstum því 29 milljónir íslenskra króna. Félagið skuldar ekki aðeins gamla knattspyrnustjóranum sínum heldur einnig breska skattinum.

Skattaskuld Macclesfield Town verður tekinn fyrir í réttarsal rétt fyrir jól eða nánar til getið 18. desember næstkomandi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×