Liverpool vann 5-2 sigur á Everton í Merseyside-slag á Anfield í kvöld. Staðan í hálfleik var 4-2, Liverpool í vil.
Þetta var sjötti sigur Liverpool í röð. Rauði herinn er með átta stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar. Gylfi Þór Sigurðsson lék allan leikinn fyrir Everton sem er í fallsæti.
Divock Origi fékk tækifæri í byrjunarliði Liverpool í kvöld og nýtti það vel. Hann kom liðinu yfir á 6. mínútu eftir sendingu frá Sadio Mané.
Senegalinn lagði upp annað mark fyrir Xherdan Shaqiri á 17. mínútu. Fjórum mínútum síðar minnkaði Michael Keane muninn í 2-1.
Origi skoraði annað mark sitt og þriðja mark Liverpool á 31. mínútu eftir langa sendingu Dejans Lovren. Origi hefur skorað í öllum fjórum leikjum sínum gegn Everton á Anfield.
Mané skoraði fjórða mark Liverpool eftir skyndisókn og sendingu Trents Alexander-Arnold á 45. mínútu.
Richarlison minnkaði muninn í 4-2 þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma í fyrri hálfleik sem var mjög fjörugur.
Sá seinni var öllu rólegri. Mané fékk þó tvö dauðafæri til að skora og Moise Kean skaut framhjá marki Liverpool úr upplögðu færi.
Á lokamínútunni skoraði Georginio Wijnaldum fimmta mark heimamanna með góðu skoti. Lokatölur 5-2, Liverpool í vil.
Liverpool skoraði fimm gegn Everton
