Það fellur í skaut Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata, að lesa upp úr umræddum spillingarsögum. Björn Leví var hvatamaðurinn að söfnun þeirra og sagði hann í útvarpsþættinum Harmageddon í dag að hann áætli að sögurnar séu í kringum 160 sem stendur. Hann segist ætla að „taka smá syrpu“ upp úr sögunum á fimmtudag, en býst þó ekki við að verða með neinn leiklestur.
Sjá einnig: Safnar sögum af hótunum og spillingu
Spillingarsögurnar eru nafnlausar og sagði Björn Leví við Vísi á sínum tíma að hann hafi sótt innblástur í MeToo-byltinguna. Uppsetning þeirrar upplýsingasöfnunar hafi gefist vel til að leiða hluti fram í dagsljósið sem ekki höfðu heyrst áður.
Auk Björns Levís munu Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Smári McCarthy, þingmenn Pírata, ræða ólíkar birtingarmyndir spillingar á fundinum. Nánari upplýsingar um fundinn má nálgast með því að smella hér en í spilaranum að neðan má hlýða á spjall Harmageddon við Björn Leví.