Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, sækja leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins (NATO) en hann hefst í London í dag. Fundurinn stendur þar til á morgun. Frá þessu er greint á vef stjórnarráðsins.
Leiðtogafundurinn er haldinn í tilefni af sjötíu ára afmælisári Atlantshafsbandalagsins. Meginefni fundarins eru horfur í afvopnunarmálum, breytt öryggisumhverfi, aðgerðir gegn hryðjuverkum, fjárframlög til NATO og samskiptin við Rússland.
Forsætisráðherra mun auk þátttöku í fundinum eiga tvíhliða fundi með forsætisráðherra Spánar, og António Costa, forsætisráðherra Portúgals. Þá flytur forsætisráðherra ræðu í dag um Ísland og velsældarhagkerfið í Chatham House, sem er ein virtasta hugveita heims á sviði alþjóðamála.
Síðdegis sækir Katrín svo móttöku í Buckingham-höll í boði Elísabetar II Bretadrottningar og snæðir svo kvöldverð í Downingstræti 10 í boði Borisar Johnson, forsætisráðherra.
Innlent