Þjóðþing Íraka hefur samþykkt afsögn forsætisráðherrans Adel Abdul-Mahdi sem greindi frá fyrirætlun sinni á föstudag. Afsögn forsætisráðherrans kemur í kjölfar háværra mótmæla í landinu og vantraustsyfirlýsingar eins æðsta klerks landsins. AP greinir frá.
Ekki voru greidd atkvæði um samþykkið en lagareglur sem eiga við aðstæður sem þessar þykir vanta í íraska löggjöf. Til þess að átta sig á hvað skuli gert í aðstæðunum var leitað álits hæstaréttar Írak.
Samkvæmt áliti hæstaréttar er ekki þörf á atkvæðagreiðslu, sagði þingmaðurinn Sarkwat Shamsedine og Mohamed al-Daraji líkti ástandinu í löggjöfinni sem svartholi.
Eftir að afsögn Abdul-Mahdi hafði verið samþykkt óskaði forseti þingsins, Mohamed a-Halbousi eftir því að forseti Írak, Barham Salih útnefndi nýjan forsætisráðherra. Stjórnarskrá ríkisins kveður á um að nú þurfi stærsta samsteypan á þingi að tilnefna mögulega forsætisráðherra innan 15 daga. Sá fær þá 30 daga til þess að mynda ríkisstjórn.
