Erlent

Trump segir Demókrata smána sig með ákærunni

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Trump forseti á fjöldafundi í Michigan í nótt.
Trump forseti á fjöldafundi í Michigan í nótt. Vísir/AP

Fulltrúadeild bandaríska þingsins ákærði Donald Trump forseta til embættismissis í nótt. Þetta er í þriðja skipti í tæplega 250 ára sögu ríkisins sem slík ákæra er samþykkt.

Samþykkt var að ákæra forsetann fyrir tvö meint brot. Annað snýr að misbeitingu valds en hitt að því að Trump hafi hindrað rannsókn þingsins á meintum þrýstingu sem hann á að hafa beitt Úkraínuforseta svo hann myndi rannsaka pólitískan andstæðing Trumps.

Forsetinn var sjálfur með fjöldafund í Michigan á meðan þingfundi stóð. Atburðirnir í Washington lituðu fundinn. „Demókratar klikkuðu Nancy [Nancy] Pelosi (forseta fulltrúadeildarinnar) hafa sett á sig eilífan smánarblett. Þannig er það. Þetta er til skammar,“ sagði forsetinn.

Stuðningsmenn forsetans tóku í sama streng en andstæðingar voru ósammála. „Pelosi, [Adam] Schiff (formaður leyniþjónustunefndar fulltrúadeildarinar) og þau öll, að gera það sem þau eru að gera? Mér finnst að það ætti að ákæra þau fyrir landráð,“ sagði Trump-kjósandinn Dale Vodden við AP í nótt.

Mary Anto, 25 ára Demókrati, tók ákærunni aftur á móti fagnandi. „Þetta skref Demókrata gleður mig mjög. Það má ekki leyfa Trump að komast upp með þetta allt saman.“

Ákæran hefur vakið heimsathygli, enda Trump einungis þriðji Bandaríkjaforsetinn sem er ákærður til embættismissis. Öldungadeildin, sem Repúblikanar stýra, mun rétta í málinu en vegna ósættis með fyrirkomulagið er ekki ljóst hvenær það verður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×