Matur

Aðventumolar Árna í Árdal: Risalamande

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Árni Ólafur úr Hinu blómlega búi mun koma öllum í rétta hátíðarskapið og reiða fram einn rétt á dag fram að jólum.
Árni Ólafur úr Hinu blómlega búi mun koma öllum í rétta hátíðarskapið og reiða fram einn rétt á dag fram að jólum. Vísir/Árni

Á hverjum degi fram að jólum birtum við uppskrift frá Aðventumolum Árna í Árdal sem sýndir eru á Stöð 2 í desember. Árni Ólafur úr Hinu blómlega búi mun koma öllum í rétta hátíðarskapið og reiða fram einn rétt á dag fram að jólum.  Með einskærri lífsgleði og eldmóð hefur Árni sérstakan hæfileika til að hrífa fólk með sér. Hér nær hann svo sannarlega að veita áhorfendum innblástur og töfrar fram bragðgóða og spennandi rétti alla aðventuna. Risalamande er uppskrift dagsins.

Aðventumolann má sjá hér í spilaranum að neðan en uppskrift og leiðbeiningar er að finna neðar í fréttinni. Aðventumolar Árna í Árdal eru á dagskrá Stöðvar 2 klukkan 19.10 alla daga fram að jólum nema á föstudögum eru þeir sýndir beint á eftir Allir geta dansað.  

Klippa: Risalamande - Aðventumolar Árna í Árdal

Eftirrétturinn sem ég er alltaf með á aðfangadag er risalamande, grjónagrautur með vanillu, blandaður þeyttum rjóma og söxuðum möndlum. Það mætti ætla að hann komi frá Frakklandi en hann er í raun aldanskur. Samkvæmt Nönnu Rögnvaldar var hrísgrjónagrautur hinn eini sanni jólagrautur í Danmörku í fyrri tíð.

Hrísgrjón voru þá dýr lúxusvara og eingöngu notuð við sérstök tilefni. Í seinni heimsstyrjöldinni voru hrísgrjón einnig nokkuð dýr og möndlur nær ófáanlegar. Þá var þeyttum rjóma, sem þá var mjög ódýr, bætt við til að drýgja grautinn og möndlunum stundum sleppt til að spara pening. Eftir stríðið hélst þessi siður áfram því fólki þótti risalamande einfaldlega betri og hátíðlegri réttur en venjulegi hrísgrjónagrauturinn.

Innihald

Risalamande

400 millilítrar vatn

200 grömm arborio-hrísgrjón

¼ teskeið salt

750 millilítrar mjólk

250 millilítrar rjómi

2 vanillubaunir

100 grömm sykur

150 grömm möndlur, grófsaxaðar

500 millilítrar rjómi

Kirsuberjasósa

100 millilítrar portvín

200 millilítrar kirsuberjalíkjör

150 millilítrar mandarínusafi

2 matskeiðar sítrónusafi

50 grömm sykur

2 teskeiðar kartöflumjöl

400 grömm frosin kirsuber

¼ teskeið möndludropar

Leiðbeiningar

  1. Risalamande - Náið upp suðunni á vatninu í þykkbotna potti og hrærið hrísgrjónum og salti út í. Setjið lok á pottinn og látið grjónin malla á lágum hita í 15-20 mínútur eða þar til vatnið er nær uppurið. Hrærið nokkrum sinnum í pottinum á meðan grjónin sjóða. 

  2. Kljúfið vanillubaunirnar og skrapið fræin úr þeim.  Takið lokið af pottinum og blandið mjólk, rjóma, vanillufræjum, vanillubaunum og sykri saman við. Náið upp suðunni og látið grautinn malla á lægsta hita í 30-45 mínútur. Hrærið í grautnum af og til og sérstaklega síðustu 20 mínúturnar svo grauturinn brenni ekki við. Hellið grautnum í eitthvert ílát og látið kólna niður í herbergishita. Blandið möndlunum saman við.

  3. Rétt áður en risalamande er borið fram er rjóminn þeyttur þar til myndast mjúkir toppar og hann blandaður varlega saman við grautinn. Risalamande er síðan borið fram með kirsuberjasósunni.

  4. Kirsuberjasósa - Setið portvín, kirsuberjalíkjör, mandarínusafa, sítrónusafa og sykur í pott og sjóðið niður í um 10 mínútur yfir miðlungshita. Bætið þá kirsuberjunum út í. Hrærið kartöflumjöl út í 2 matskeiðar af vatni,  hrærið út í pottinn og látið sósuna malla yfir vægum hita í 5 mínútur. Bragðið sósuna þá til með möndludropunum og látið hana kólna alveg áður en hún er borin fram.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×