Erlent

Sví­þjóðardemó­kratar mælast stærstir

Atli Ísleifsson skrifar
Jimmie Åkesson hefur leitt Svíþjóðardemókrata frá 2005.
Jimmie Åkesson hefur leitt Svíþjóðardemókrata frá 2005. Getty

Svíþjóðardemókratar hafa í fyrsta sinn mælst stærsti flokkur Svíþjóðar í skoðanakönnun sænska ríkissjónvarpsins SVT og Novus.

Flokkurinn mælist með 24 prósent fylgi, en Jafnaðarmannaflokkur Stefan Löfven forsætisráðherra 23,7 prósent. Munurinn milli flokkanna er þó innan skekkjumarka.

Fylgi Svíþjóðardemókrata hefur aukist í könnunum síðustu mánuði, og á sama tíma hefur fylgi Jafnaðarmannaflokksins dalað.

Í frétt SVT segir að Jafnaðarmannaflokkurinn sé fyrst og fremst að missa fylgi meðal þeirra sem segjast ekki myndu kjósa yrði kosið í dag, en einnig til Hægriflokksins (Moderaterna) og Svíþjóðardemókrata. Að sama skapi eru Svíþjóðardemókratar að sækja fylgi frá kjósendum Hægriflokksins, Kristilegra demókrata og Jafnaðarmanna.

Fyrr í mánuðinum var greint frá því að Jimmie Åkesson, formaður Svíþjóðardemókrata, og Ulf Kristersson, formaður Hægriflokksins, hafi átt vinnufund þar sem þeir ræddu stöðuna í pólitíkinni og mögulegt samstarf. Var þetta í fyrsta fundur sinnar tegundar en Svíþjóðardemókratar hafa verið í kuldanum á sænska þinginu allt frá því að þeir náðu mönnum á þing árið 2010. Hafa aðrir flokkar sniðgengið flokkinn vegna harðrar stefnu flokksins í innflytjendamálum.

Könnun SVT og Novus (18. nóvember til 15. desember)

Svíþjóðardemókratar 24,0% (+2,5% frá fyrri könnun)

Jafnaðarmannaflokkurinn 23,7% (-2,3%)

Hægriflokkurinn 17,9% (-0,4%)

Vinstriflokkurinn 9,9% (+0,6%)

Miðflokkurinn 8,3% (+0,5%)

Kristilegir demókratar 6,2% (-0,9%)

Græningjar 5,0% (+0,2%)

Frjálslyndir 3,5% (+0,1%)

Aðrir flokkar 1,5% (-0,3%(

Óvissir 5,9%


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×