Erlendur ferðamaður nokkur steig bensínið í botn á Suðurlandsvegi í gærmorgun á leið sinni að hinni vinsælu perlu Jökulsárlóni.
Lögreglan á Suðurlandi greinir frá því að hún hafi stöðvað kappann fyrir ofan hraðan akstur. Ók hann bíl sínum á 142 kílómetra hraða á Mýrdalssandi fyrir austan Vík í Mýrdal en eins og gefur að að skilja er það nokkuð og gott betur umfram 90 kílómetra hámarkshraðann á svæðinu.
Hálkublettir voru í vegaköntum á þessum slóðum þar sem brotið átti sér stað en ferðamaðurinn ók fólksbíl sem hann hafði tekið á leigu hér á landi.
Kvaðst ferðamaðurinn vera að drífa sig í Jökulsárlón en hann væri í dagsferð frá Reykjavík og því hefði hann knappan tíma í dagsbirtunni.
Ökumaðurinn þurfti að reiða fram 150 þúsund krónur í sektargreiðslu fyrir brot sitt og ljóst að ferðin í Jökulsárlón reyndist margfalt dýrari en hann hafði lagt upp með. Aðspurður kvaðst ferðamaðurinn ekki hafa ekið í vetrarfærð áður og lofaði að aka miðað við aðstæður hér eftir.
