Matur

Aðventumolar Árna í Árdal: Súkkulaðitrufflur

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Árni Ólafur úr Hinu blómlega búi mun koma öllum í rétta hátíðarskapið og reiða fram einn rétt á dag fram að jólum.
Árni Ólafur úr Hinu blómlega búi mun koma öllum í rétta hátíðarskapið og reiða fram einn rétt á dag fram að jólum. Vísir/Árni

Á hverjum degi fram að jólum birtum við uppskrift frá Aðventumolum Árna í Árdal sem sýndir eru á Stöð 2 í desember. Árni Ólafur úr Hinu blómlega búi mun koma öllum í rétta hátíðarskapið og reiða fram einn rétt á dag fram að jólum. 

Með einskærri lífsgleði og eldmóð hefur Árni sérstakan hæfileika til að hrífa fólk með sér. Hér nær hann svo sannarlega að veita áhorfendum innblástur og töfrar fram bragðgóða og spennandi rétti alla aðventuna. Súkkulaðitrufflur er uppskrift dagsins. Aðventumolann má sjá hér í spilaranum að neðan en uppskrift og leiðbeiningar er að finna neðar í fréttinni. Aðventumolar Árna í Árdal eru á dagskrá Stöðvar 2 klukkan 19.10 alla daga fram að jólum nema á föstudögum eru þeir sýndir beint á eftir Allir geta dansað.  

Klippa: Súkkulaðitrufflur - Aðventumolar Árna í Árdal

Innihald

Trufflugrunnur

300 millilítrar rjómi

Bragðauki (sjá fyrir neðan)

400 grömm dökkt súkkulaði, brytjað niður

100 grömm mjög mjúkt smjör

200 grömm dökkt kakóduft

Bragðaukar

4 ástaraldin, innihaldið skafið úr

20 grömm Earl Grey te

Börkur af einni sítrónu og 5 timjangreinar

Leiðbeiningar

  1. Hitið rjóma í litlum potti og takið af hitanum þegar hann nær suðumarki . Bætið bragðaukanum út í heitan rjómann, setjið lok á pottinn og látið standa í um 20 mínútur. 

  2. Setjið súkkulaðið í hitaþolna skál og hellið rjómanum yfir súkkulaðið í gegnum sigti. Þrýstið á bragðgjafann í sigtinu með sleikju til að ná öllu bragði úr honum. 

  3. Byrjið að hræra í miðju skálarinnar með sleikju þar til súkkulaðið þar er byrjar að þykkna. Haldið áfram að hræra og færið ykkur alltaf utar í skálina þar til allt súkkulaðið er orðið skínandi fallegt. Ef allt súkkulaðið nær ekki að bráðna er hægt að setja skálina rétt snöggvast yfir heitt vatnsbað. Setjið nú súkkulaðið til hliðar og látið það ná stofuhita.

  4. Bætið smjöri við í litlum skömmtum og hrærið þar til engir smjörbitar eru sjáanlegir. Setjið trufflugrunninn í sprautupoka og myndið 2 sentímetra dropa á bökunarpappírsklæddri bökunarplötu. Setið trufflurnar inn í ísskáp og kælið í 1 klukkustund eða þar til þær eru orðnar nokkuð harðar.

  5. Setjið kakóduftið á grunnan disk. Veltið trufflunum í kakóduftinu svo þær festist síður við hendurnar. Rúllið þeim snögglega í lófunum í nettar kúlur. Setjið trufflurnar aftur á bökunarplötuna og inn í kæli í um 30 mínútur.

  6. Veltið nú trufflunum aftur í kakódufti og notið tvo gaffla, annars koma fingraför á trufflurnar, til að færa þær yfir á disk til að bera fram.

  7. Ef ekki á að bera trufflurnar strax fram er best að sleppa því að velta þeim úr kakóduftinu og setja þær í loftþétt ílát. Trufflurnar geymast í um viku í kæli. Þegar þær eru bornar fram er þeim velt upp úr kakódufti beint úr kælinum, settar á disk og látnar ná stofuhita, sem getur tekið einn til tvo tíma.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.