Innlent

15 ára útskurðarsnillingur í Reykjanesbæ: „Ég er hálfgerður meistari“:

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar

Þrátt fyrir að Benedikt Máni Möller Birgisson í Reykjanesbæ, sé ekki nema fimmtán ára gamall þá hefur hann náð góðum tökum á að skera út allskonar karla úr birki og ösp. Sýning á jólasveinum og snjókörlum stendur nú yfir á bókasafni Reykjanesbæjar

Trékarlarnir hans Benedikts Mána standa í skáp á bókasafninu þar sem gestir og gangandi geta skoðað þá og séð hvað þeir eru vel tálgaðir og fallegir. Benedikt Máni, sem er einhverfur er sjálfmenntaður í faginu, hann byrjaði bara að leika sér að tálga fyrir þremur árum og hefur náð góðum árangri í þessari list sinni.

„Ég er eiginlega bara sjálflærður, við pabbi fórum reyndar inn á Youtube til að sjá hvernig ég ætti að halda á hnífnum. Svo eftir það fann ég út úr því hvernig ég á að tálga, ég þarf ekki að læra neitt, ég er hálfgerður meistari því ég tálga svo mikið“, segir Benedikt Máni og bætir við.

„Áður fyrr þá skar ég mig rosalega mikið mjög oft en ég er eiginlega hættur því út af því að þegar ég er orðin miklu betri þá sker ég mig miklu minna, ég er alveg hættur að skera mig því ég er búin að æfa mig svo mikið“. 

Sýning Benedikts Mána stendur yfir í Bókasafni Reykjanesbæjar og hefur vakið mikla athygli þar.Magnús Hlynur Hreiðarsson.

En hvaða trjátegundir notar Benedikt Máni í útskurðinum?

„Ég nota oft birkitré, það er besta sem ég geri, svo nota ég líka ösp. Ég er ekki bara að tálga jólasveina og snjókarla, ég tálga líka birni, víkinga, hunda,fugla, sverð, hnífa og skartgripi“.

Áhugasamir geta farið inn á Facbookarsíðu Benedikts Mána, sem heitir „Tréútskurðaverk Benedikts Mána Möller“ vilji fólk vita meira um hann og hans verk.

Benedikt Máni er ekki bara góður að tálga því hann er líka snillingur í að teikna.Magnús Hlynur Hreiðarsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×