Enski boltinn

Nýr stjóri Gylfa ætlar að koma Everton í Meistaradeildina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlo Ancelotti er mættur á Goodison Park.
Carlo Ancelotti er mættur á Goodison Park. Getty/Jan Kruger

Carlo Ancelotti, nýr knattspyrnustjóri Everton, segir það ekki ómögulegt verkefni að koma Everton í Meistaradeildina.

Carlo Ancelotti er tekinn við Gylfa Þór Sigurðssyni og félögum í Everton sem sitja í fimmtánda sæti deildarinnar aðeins fjórum stigum frá fallsæti.

„Sæti í Meistaradeildinni er langtímamarkmiðið og við setjum stefnuna þangað. Það er ekkert ómögulegt í fótbolta,“ sagði Carlo Ancelotti á blaðamannafundi í dag.



Everton hefur ekki endað meðal fjögurra efstu liða deildarinnar síðan árið 2005 en það er líka eina skiptið síðan 1988 sem liðið hefur verið það ofarlega í töflu ensku úrvalsdeildarinnar.

Carlo Ancelotti hefur náð yfir fimmtíu prósent árangri með öll sín lið fyrir utan þegar hann stýrði liðum Reggiana og Parma fyrir aldarmótin.

„Everton er eitt stærsta félagið í Englandi. Það er líka rétt að ég hef stýrt toppklúbbum,“ sagði Ancelotti.

„Verkefnið mitt hjá Paris Saint-Germain var mjög gott. Hér er það sama á ferðinni. Ég fór á æfingavöllinn í gær. Hann er frábær. Það að félagið vilji byggja nýjan leikvangi þýðir að þeir séu með góða mynd af því hvernig þeir vilja ná árangri,“ sagði Ancelotti.

„Tekjur í fótboltanum eru mjög mikilvægar í dag. Everton vill fá nýjan leikvang til að bæta það og vera samkeppnishæfari. Frá mínum bæjardyrum þá væri gott að vera hér þegar nýi leikvangurinn opnar,“ sagði Ancelotti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×