Enski boltinn

Rangt að láta Liverpool mæta Atlético Madrid

Sindri Sverrisson skrifar
Þessir stuðningsmenn voru á leik Liverpool og Atlético Madrid á Anfield, leik sem hefði líklega betur verið sleppt.
Þessir stuðningsmenn voru á leik Liverpool og Atlético Madrid á Anfield, leik sem hefði líklega betur verið sleppt. VÍSIR/GETTY

Liverpool hefði ekki átt að mæta Atlético Madrid á Anfield í Meistaradeild Evrópu í fótbolta þann 11. mars, segir nýráðinn yfirmaður lýðheilsumála í Liverpool-borg.

Liðin áttust við í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar og vann Atlético einvígið eftir framlengdan leik á Anfield. Á leiknum voru 54.000 áhorfendur og þar á meðal 3.000 stuðningsmenn spænska liðsins. Á þeim tíma voru aðeins sex staðfest kórónuveirusmit í Liverpool-borg en veiran hafði hins vegar dreift meira úr sér í Madrid. Sama dag og leikurinn fór fram var til að mynda ákveðið að ekki yrðu spilaðir fleiri leikir í spænsku deildinni nema fyrir luktum dyrum, og spænsk yfirvöld höfðu látið loka skólum. Bresk yfirvöld voru hins vegar enn með þá stefnu að láta veiruna trufla daglegt líf sem minnst en ráðlögðu þeim sem töldu sig finna fyrir einkennum COVID-19 sýkingar að vera í heimasóttkví.

Í gær voru staðfest smit í Liverpool orðin 309. „Það var ekki rétt ákvörðun að láta leikinn fara fram,“ sagði Matthe Ashton, sem í gær var skipaður yfirmaður lýðheilsumála í borginni, við The Guardian. Hann kvaðst þó ekki álasa þeim vísindamönnum og yfirmönnum heilbrigðismála sem ráðlagt hefðu stjórnvöldum að loka ekki á íþróttakappleiki.

„Fólk tekur ekki rangar ákvarðanir viljandi. Kannski ríkti ekki skilningur á alvarleika stöðunnar hjá stjórnvöldum á þessum tíma,“ sagði Ashton og bætti við: „Þó að við vitum það aldrei fyrir víst þá gæti leikurinn við Atlético Madrid verið einn af þeim viðburðum og mannamótum sem höfðu áhrif á fjölgun smita í Liverpool. Leikurinn ætti svo sannarlega að vera hafður í huga í framtíðarrannsóknum á þessum atburðum svo að hægt sé að læra af þessu og sleppa við að gera sömu mistök.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×