Fótbolti

Sautján ára íslenskum fótboltastrák í Svíþjóð hrósað mikið fyrir hugarfarið sitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ísak Bergmann Jóhannesson hefur skorað 11 mörk í 21 leik fyrir íslensku unglingalandsliðin. Hann birti þessa mynd af sér í landsliðsbúningnum á Instagram síðu sinni.
Ísak Bergmann Jóhannesson hefur skorað 11 mörk í 21 leik fyrir íslensku unglingalandsliðin. Hann birti þessa mynd af sér í landsliðsbúningnum á Instagram síðu sinni. Mynd/Instagram

Einn efnilegasti knattspyrnumaður Íslands lætur ekkert trufla sig við það að verða öflugur knattspyrnumaður og það svo aðrir atvinnumenn í kringum hann taka eftir því.

Ísak Bergmann er aðeins sautján ára gamall en þegar farinn að banka fast á dyrnar hjá aðalliði Norrköping.

Ísak Bergmann var í byrjunarliði Norrköping á undirbúningstímabilinu og skoraði meðal annars í æfingaleik á móti Breiðabliki. Vonandi færi hann að spila mikið í sumar og vaxa og dafna sem knattspyrnumaður.

Ísak, sem hélt upp á sautján ára afmælisdaginn sinn í mars, kom til sænska liðsins frá ÍA síðasta sumar. Hann hafði tækifæri til að fara til stærra félags en vildi komast í meistaraflokksfótbolta sem fyrst í stað þess að vera í unglingaliðum stærri liðs.

Jonathan Levi er nýkominn til Norrköping frá norska stórklúbbnum Rosenborg og hann hrósar íslenska unglingaliðsmanninum fyrir frábært hugarfar í viðtali við staðarblaðið Norrköpings Tidningar.

„Ég veit ekki um marga sautján ára stráka sem eru svona einbeittir og taka fótbolta svona alvarlega eins og hann," sagði Jonathan Levi við Norrköpings Tidningar en fótbolti.net segir frá.

„Ísak hefur hrifið mig ótrúlega mikið. Hann er auðvitað hæfileikaríkur fótboltamaður en hann leggur líka svo mikla vinnu á sig. Vanalega eru margir aðrir hlutir að heilla 17 ára unglinga," sagði Jonathan Levi.

Það er ekki bara Jonathan Levi sem binda væntingar til Ísaks Bergmanns því fyrr í vor var hann valinn efnilegasti leikmaðurinn í sænsku úrvalsdeildinni.

Ísak Bergmann náði að spila einn leik í íslensku deildinni með ÍA áður en hann fór út og þá kom hann við sögu í einum leik með Norrköping síðasta sumar.

Faðir Ísaks er Jóhannes Karl Guðjónsson, fyrrum atvinnumaður og landsliðsmaður en núverandi þjálfari Skagamanna í Pepsi Max deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×