Viðskipti innlent

Vildu verja störf og völdu því hlutabótaleiðina

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Finnur Oddsson er forstjóri Origo en hann mun á næstunni taka við forstjórastöðunni hjá Högum.
Finnur Oddsson er forstjóri Origo en hann mun á næstunni taka við forstjórastöðunni hjá Högum.

Félagið Origo sem skráð er í Kauphöllinni skilaði 425 milljóna króna hagnaði á fyrsta ársfjórðungi. Samkvæmt uppgjöri er það vegna 460 milljón króna gengishagnaðar en krónan veiktist umtalsvert á fjórðungnum.

Fjórir starfsmenn fyrirtækisins fóru á hlutabótaleið stjórnvalda í apríl og greiddi ríkissjóður 950 þúsund krónur vegna þeirra um mánaðamót og 50 starfsmenn fóru á hlutabótaúrræði stjórnvalda í maí.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er það vegna þess að stór fyrirtæki í ferðaþjónustu, eins og Icelandair sem fyrirtækið sinnir, drógu saman seglin að einhverju eða öllu leyti.

„Við höfum nýtt þessa leið í stað þess að segja upp fólki,“ segir Finnur Oddsson forstjóri félagsins.

Í uppgjöri félagsins kemur fram að eigið fé samstæðunnar sé 7,2 milljarðar króna. Félagið keypti eigin hluti fyrir 33 milljónir króna í janúar í samræmi við endurkaupaáætlun sem heimilar stjórn kaup á allt að 10% af hlutfé félagsins. Arðgreiðslu til hluthafa að upphæð 180 milljónir króna er frestað til 6. september.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er nú horft til þess að halda hluthafafund um næstu mánaðamót þar sem lagt verður til að engin arðgreiðsla verði greidd til hluthafa vegna áhrifa af kórónuveirufaraldrinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×